Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 180
180
Í tveimur greinum sem birtust í Morgunblaðinu fagnar Hannes jafnframt
bók Hallgríms og fjallar ítarlega um ferð Halldórs til Sovétríkjanna.
Tilgangurinn er sá að minna á það sem skáldið sagði ósatt um reynslu sína
eins og Hannes orðar það.31
Grein Hallgríms, „Baugur og bláa höndin“, á líklega rætur að rekja til
átakanna um Höfund Íslands, en leiða má að því líkum að Hallgrími hafi
þótt óþægilegt að verða óforspurður flokksskáld hægri aflanna, og hafi
því beðið færis að slíta sig lausan á táknrænan hátt og með ótvíræðum
hætti. Um leið má líklega skýra djúpstæða andúð ýmissa hægri manna á
Hallgrími þannig að þeir hafi túlkað skrifin sem hrein svik eftir stuðning-
inn sem þeir sýndu honum í deilunum um skáldsöguna. Stuttu eftir útgáfu
greinarinnar í Morgunblaðinu í september 2002 var hann boðaður á fund
Davíðs í Stjórnarráðinu, eins og frægt er orðið, þar sem forsætisráðherra
mótmælti fullyrðingum Hallgríms harðlega.
Í tímaritsgreininni „Draugur Group“, sem birtist löngu síðar eða árið
2010, segir Hallgrímur frá fundinum og setur fram skýringar á skrif-
um sínum. Hallgrímur segir að óþol gagnvart Davíð Oddssyni og „per-
sónupólitíkusum“, sem meðal annars „hafði verið með Baug á heilanum“
og sigað lögreglunni á fyrirtækið, hafi rekið hann til að skrifa greinina
á sínum tíma, en lögreglunni var samkvæmt Hallgrími stýrt af ráðandi
stjórnmálaöflum: „átti þessi maður að geta ráðskast með allt og alla og
komist upp með hvað sem er, án þess að nokkur þyrði að æmta […]. Í
hverskonar landi bjuggum við eiginlega? Ég tók sénsinn og ýtti á „send“.
Það er ekkert gaman að öryggi óttans.“32 Í „Baugi og bláu hendinni“ gagn-
rýnir Hallgrímur harðlega þær aðferðir Davíðs Oddssonar að persónugera
ávallt pólitísk mál líkt og hatrömm deilan við Jón Ásgeir gefi svo glöggt
til kynna. Segir Hallgrímur að fundurinn með Davíð hafi staðfest fyrir sér
að forsætisráðherrann hugsaði „allt í persónum en fátt í pólitík.“33 Einnig
segir hann að Davíð hafi í reiði sinni gefið í skyn að faðir hans sem var
Vegamálastjóri gæti átt það á hættu að missa vinnu sína.34
31 Sjá Hannes Hólmstein Gissurarson, „Um Höfund Íslands“, Morgunblaðið 16.
desember 2001, bls. 14; „Kiljan á öld öfganna“, Morgunblaðið 20. janúar 2002, bls.
20–21.
32 Hallgrímur Helgason, „Draugur Group – minningarorð frá Baugspenna“, bls. 6.
33 Hallgrímur Helgason, „Draugur Group – minningarorð frá Baugspenna“, bls. 5.
34 Hallgrímur Helgason, „Draugur Group – minningarorð frá Baugspenna“, bls. 10.
ALDA BJöRK VALDIMARSDÓTTIR OG GUðNI ELÍSSON