Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 121
121
Symbólið er holdtekning nýs tungumáls þar sem mörk „þekkingarfræði,
siðfræði, guðfræði, frumspeki, guðspeki og goðkynngi“ mást út, svo vitn-
að sé til orða Belyjs,60 og hið skáldlega tungumál öðlast nýtt og sérstætt
þekkingargildi. Þannig lítur Belyj á hinn nýja skáldskap sem farveg dul-
spekikenninga er „þjóna því hlutverki að varðveita og miðla leifum galdra-
máls frá fornri tíð til nútímans“.61 Málspeki höfundarins leiðir á endanum
til róttæks afbrigðis nafnhyggju, sem eignar hinu skáldlega orði goðkynngi
og gerir því fært að særa fram rými er liggur handan við svið hins hvers-
dagslega tungumáls.
Spor hugmyndarinnar um goðkynngi má finna víða í yfirlýsingum
kúbó-fútúristanna, þar sem meðlimirnir stíga fram sem spámenn og taka
sér það hlutverk að halda í heiðri eða endurlífga ævafornan málskilning
með rætur í galdratrú. Í mörgum tilvikum vísa þeir til staðbundinna rúss-
neskra hefða og goðsöguleg sjálfsmyndasmíð þeirra tengist á köflum síður
ímynd sjáandans í symbólískri fagurfræði almennt en ímynd hins asíska
seiðmanns eða „sjamans“. Ímyndin verður holdgerving sérstæðrar flökku-
menningar sem tengist hinum asíska menningarheimi og er stillt upp and-
spænis tortímandi öflum hinnar röklegu og staðbindandi siðmenningar
Evrópu.62 Greina má augljósan skyldleika við skáldskaparfræðilegar hug-
myndir symbólismans í slíkum fortíðarfantasíum, þar sem hefðir dulhyggju
og galdratrúar þjóna sem grundvöllur nýrrar fagurfræðilegrar iðju. Þannig
gegnir andstæða röklegs Vestursins og þess lífsþróttar sem talinn er búa
innra með slavneskri menningu Austursins mikilvægu hlutverki í skrif-
um bæði Belyjs og Bloks.63 Jafnt í symbólismanum og kúbó-fútúrismanum
tengdust slíkar hugmyndir útópískri sýn á endurlausn mannsins er lægi
í andartaki trúarlegs og fagurfræðilegs algleymis. Markmið hinnar nýju
Essays of Andrey Bely, ritstj. S. Cassedy, Berkeley: University of California Press,
1985, bls. 93–110, hér bls. 94.
60 Hér vitnað eftir Irinu Gutkin, „The Magic of Words. Symbolism, Futurism, Social-
ist Realism“, bls. 230.
61 Sama rit, bls. 230.
62 Sjá m.a. Anthony Parton, „Avantgarde und mystische Tradition in Russland
1900–1915“, þýð. Ebba D. Drolshagen, Okkultismus und Avantgarde. Von Munch bis
Mondrian 1900–1915, ritstj. Veit Loers, Ostfildern: Tertium, 1995, bls. 193–215;
Bodo Zelinsky, „Der Primitivismus und die Anfänge der avantgardistischen Male-
rei und Literatur in Russland“, Russische Avantgarde 1907–1921. Vom Primitivismus
zum Konstruktivismus, ritstj. B. Zelinsky, Bonn: Bouvier / Grundmann, 1983, bls.
5–25.
63 Sjá Irina Gutkin, „The Magic of Words. Symbolism, Futurism, Socialist Realism“,
bls. 227.
AF GOðKYNNGI ORðSINS