Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 62
62
nauðsynlegt að huga nánar að hér. Hér verður litið á það sem óumdeilt
að kristnir trúarleiðtogar og fulltrúar kirkjustofnana eða trúarhópa, líkt
og margir aðrir í samfélaginu, lýsa oftlega neikvæðum skoðunum á ýmiss
konar kynlífshegðun, t.d. á vændi og klámdýrkun. Fremur en að staldra við
þá staðreynd má halda áfram og spyrja hvert sé þá hið kristna viðhorf og sá
kristni skilningur á kynverund manneskjunnar sem kirkjan boði. Hverjar
eru forsendur hins góða kynlífs að kristnum skilningi? Er enn litið svo á
að hið góða og rétta kynlíf eigi sér afmarkaðan stað? Getur verið að sá
staður sé enn hjónabandið? Í leit að svari má byrja á að vísa til siðfræðings-
ins Christine E. Gudorf sem nefnd var hér að framan en hún hefur bent
á að í bandarísku samfélagi hafi lengi ríkt nokkurs konar kreppuástand
vegna skorts á gagnlegri, trúarlegri leiðsögn um kynverund manneskj-
unnar.23 Ríkjandi skilningur á kynlífi þar í landi byggist að hennar mati enn
á margs kyns ranghugmyndum sem rekja megi til hugmyndafræði krist-
inna kirkjudeilda sem haldi í ævaforna og úr sér gengna þekkingu, ættaða
frá fornaldar- og miðaldaguðfræðingum. Í stað þess að veita samfélaginu
uppbyggilega, siðfræðilega leiðsögn um heilbrigt og gefandi kynlíf bjóði
kirkjur, og þá sér í lagi sú kirkjudeild sem hún tilheyrir, rómversk-kaþólska
kirkjan, upp á smáskammtalækningar þar sem látið sé nægja að bregð-
ast við vissum málum sem snerti kynverund manneskjunnar, t.d. samkyn-
hneigð og framhjáhaldi, í stað þess að líta á kynlíf sem hluta mennskunnar
og alla umræðu um það sem hluta af kristnum mannskilningi.24
Í framhaldi af þessari skoðun má spyrja hvort eitthvað svipað eigi við
hér á landi. Bauð íslenska þjóðkirkjan upp á gagnlega, trúarlega leiðsögn
um kynlíf og kynhneigð á því árabili þegar átökin um hjónaband samkyn-
hneigðra voru í algleymingi, svo vísað sé til upphafs greinarinnar? Hvernig
tengist kristinn mannskilningur og kynverundarskilningur kirkjunnar?
Hversu upplýst er þjóðkirkjan um transfólk, tvíkynhneigt fólk eða um
þriðja kynið? Það er skoðun mín að mikið vanti upp á að þjóðkirkjan hafi
unnið vel í þessum málaflokki að undanförnu og því skorti á gagnlega
leiðsögn um kynverund sem byggir á kristnum mannskilningi. Þótt ekki sé
23 Christine E. Gudorf, Body, Sex, and Pleasure, bls. 1–28.
24 Sama rit, bls. 1–3. Gudorf gengur mjög langt í gagnrýni sinni á kristna kynlífshefð
og fastheldni kirkjunnar við hana. Meðal annars álítur hún að (rómversk-kaþólska)
kirkjan beri ábyrgð á fjölda dauðsfalla sem tengjast ólöglegum fóstureyðingum,
AIDS og öðrum kynsjúkdómum, en ekki síður beri hún ábyrgð á sálarkreppu fólks
vegna viðhorfs til kynhneigðar, eyðileggingu náinna sambanda og afskræmingu
samfélaga.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR