Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 155
155
tiltekið eftirlit og umgjörð þóttu tryggja að boðskapur myndarinnar hefði
tilætluð uppfræðsluáhrif. Þannig fékkst undanþága til dreifingar á mynd-
inni á vegum félagasamtakanna NCCVD í upphafi þriðja áratugarins, og
þar varð hún, í talsvert styttri útgáfu, að uppistöðuverki í þeim forvarnar-
miðuðu sýningardagskrám sem samtökin stóðu fyrir í samkomusölum og
sérstaklega leigðum sýningarsölum víða um Bretland.23
Ekki kemur á óvart að Damaged Goods hafi orðið miðlæg í forvarnar-
starfi NCCVD, því þótt hún hafi verið framleidd af sjálfstæðu kvikmynda-
fyrirtæki, mótast hún af borgaralegri siðbótarorðræðu, sem leggur áherslu
á að hlúa að fjölskyldunni sem grunneiningu samfélagsins. Greining á
táknrænni framsetningu myndarinnar sýnir glöggt þá samsvörun sem
dregin er upp milli smits og smitleiða og niðurbrots á mærum milli stétta
annars vegar og opinbers vettvangs og einkarýmis hins vegar. Aðgreining
og skörun þessara sviða er sett fram í gegnum frásagnarlega uppbyggingu
og táknmál sögunnar, sem flakkar í fyrstu milli sögupersóna úr ólíkum
stéttum samfélagsins, og lýsir smitun milli hinna ólíku sviða þegar leiðir
persóna liggja saman.
Í upphafskafla myndarinnar er örlögum fátæku sveitastúlkunar Edith
Wray lýst, þar sem hún kemur til stórborgarinnar í von um að finna vinnu
og bæta kjör sín. Hún fær starf sem sölustúlka í kvenfataverslun en verður
þar fórnarlamb kynferðislegs ofbeldis eigandans. Edith er rekin þegar í
ljós kemur að hún gengur með barn undir belti og grípur að lokum til þess
neyðarráðs að stunda vændi til að geta greitt fyrir umsjá barns síns í nunnu-
klaustri. Eftir að hafa rakið sorgarsögu Edith skapar frásögnin félagslegan
samanburð með því að víkja að persónum úr efri millistétt, laganemanum
George og unnustu hans, þingmannsdótturinni Henriettu. Til að halda
upp á námslokin fer George út á lífið með félögum sínum og lendir í
„ævintýrum“ sem verða til þess að hann smitast af kynsjúkdómi. Í styttri
útgáfu myndarinnar, sem sýnd var í fræðslustarfi NCCVD, hafa atriði er
segja nánari deili á konunni sem smitar George verið klippt út, en í sam-
antekt á söguþræði upphaflegu og bönnuðu útgáfu myndarinnar kemur
hins vegar fram að George hittir Edith, sem þá er orðin vændis kona, á
23 The National Council for Combating Venereal Disease, A List of Cinematograph
films owned by the N.C.C.V.D., bls. 3. Sjá nánari umfjöllun um samspil kvikmynda-
varðveislu og kvikmyndatúlkunar í samhengi við kvikmyndina Damaged Goods í
grein minni, „Archival Realities and Contagious Spaces: Shopgirls, Censorship and
the City in Damaged Goods“, Using Moving Image Archives: Scope: An Online Journal
of Film Studies e-Book, ritstj. Nandana Bose og Lee Grieveson, júní 2010.
KONAN, BORGIN OG KYNSJúKDÓMAR