Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 162
162
an aðgang að almannarýminu í frítíma sínum. Líkt og Peiss bendir á,
greiddu hin nýju samskiptamynstur borgarmenningarinnar leið kvenna
um almannarýmið, en um leið jókst krafan um að uppfylla samfélagslegar
kröfur um siðlega hegðun, en sú staðreynd að konur voru upp á kaupmátt
karlmanna komnar um að greiða fyrir skemmtanirnar skapaði ákveðinn
þrýsting um kynferðislegt samneyti. Afþreyingarmiðuð stefnumótamenn-
ingin gerði almannarýmið þannig að opinskáu sviði hugsanlegrar „ósið-
legrar“ hegðunar þar sem samskipti kynjanna mörkuðust af lögmálum
gagnkvæmra hagsmuna í anda viðskipta og verslunar.35
Kynni Georges af borgarlífinu og ófarir hans þar helgast ekki síst
af reynsluleysi hans og skorti á læsi á stefnumótamenninguna. Norma,
samstarfskonan sem hann fer út með, birtist þar sem tækifærissinni, sem
notar George til þess að veita sér aðgang að ýmiss konar skemmtunum og
afþreyingu, en hefur takmarkaðan áhuga á honum umfram það. Gefið er
í skyn að þessi neyslutengda örvun borgarlífsins beri sveitapiltinn ofurliði
þegar hann endar eitt kvöldið með vændiskonu, sem verður þar að nokk-
urs konar táknrænum staðgengli borgarstúlkunnar í kortlagningu á hættu-
svæðum kynsjúkdómasmitsins. Pilturinn smitast og er þar að auki rekinn af
skrifstofunni fyrir að taka peninga í leyfisleysi til að fjármagna stefnumótin
með Normu. En meðan ánetjandi afþreyingarmenning borgarinnar verð-
ur George að falli, er bjargræðið að finna í fræðslumyndasýningarstarfsemi
BSHC. Þegar George tekur að kenna sér meins rekur hann augun í bækl-
ing sem samstarfsmaður færði honum eftir fræðslukvöldið. Bæklingurinn,
sem auglýstur er með nærmyndarskoti, reynist fjalla um kynsjúkdóma og
áhrif þeirra, og verður lesturinn til þess að hvetja George til þess að fara í
eftirlit á næstu heilsugæslustöð. Læknirinn staðfestir grunsemdir Georges
og sendir hann á meðferðarhæli í heimahögunum, þar sem foreldrar hans
kenna sér um að hafa ekki varað son sinn nægilega við hættunum sem
leynast í borginni. Í úrlausn vandamálsins reynist kvikmyndamiðillinn
þannig lykilþáttur. Gefið er í skyn að afþreyingarkostir nútímans séu var-
hugaverðir, þeir séu tælingarafl í sjálfu sér, enda höfði þeir markvisst til
kvenna. En í stað þess að hafna vinsældarmenningu leitast myndin við að
sýna fram á að hægt sé að beita afþreyingarmiðlum til forvarnarfræðslu.
Undir skýru stofnanalegu eftirliti geti kvikmyndasýningar orðið „heilsu-
samlegur“ valkostur og andsvar við spillandi áhrifum borgarlífsins.
35 Kathy Peiss, Cheap Amusements: Working Women and Leisure in Turn-of-the-Century
New York, Philadelphia: Temple University Press, 1986, bls. 3–5.
HEIðA JÓHANNSDÓTTIR