Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 201
201
samband Guðs og veraldarinnar og hvert sé markmið mannkyns í heiminum.8
Í framhaldi af þessu má segja að margir guðfræðingar hafi breytt um stefnu og
leitist við að færa guðfræðina í átt til jarðarinnar í stað þess að benda til himins
og hinnar andlegu víddar eingöngu. Hin jarðmiðlæga guðfræði leggur áherslu
á að jörðin og náttúran öll sé sköpunarverk Guðs. Guð sé ekki fjarlægur jörð-
inni, hann sé jörðin; viska hans og kraftur búi í náttúrunni. Nauðsynlegt sé
að þekkja þá visku og vita hvernig allt er samtengt í lífríkinu og gera sér grein
fyrir að maðurinn tilheyrir því.9
Þá hefur í hinni kristnu, vistguðfræðilegu orðræðu einnig verið á það bent
að öll guðfræði sé háð hugmyndafræðilegu samhengi sínu, tíma og menn-
ingu. Hlýnun jarðar er, svo tekið sé dæmi um nýlegt umfjöllunarefni innan
vistguðfræði, álitið guðfræðilegt vandamál að því leyti að guðfræðingar telja
að í tengslum við hana verði að endurskoða hugmyndir kristninnar um sam-
band Guðs, manns, náttúru og alheimsins. Fölsk sjálfsmynd ásamt fölskum
guðsskilningi í vestrænni, kristinni menningu er því af mörgum talin hafa
átt þátt í að skaða og eyðileggja jörðina og lífríkið allt.10 Síðast en ekki síst
kemur efniviður hinnar nýju vistguðfræði innan frá, frá gyðinglegri og krist-
inni guðfræðihefð þar sem finna má digra sjóði visku, ekki síst djúpstæða
tilfinningu fyrir sáttmálahugsun sem og hugsun um samfélagslegt réttlæti.
Sáttmálahugsunin birtist m.a. í skrifum um að jörðin sé heimili okkar allra:
manna, dýra og plantna. Hugtakið vistfræðilegt réttlæti (e. eco-justice) er fyr-
irferðarmikið og tjáir meðvitund um hina óréttlátu skiptingu gæða heimsins
og hvernig t.d. hlýnun jarðar mun bitna harðast á þeim fátæku og valdalausu.
Guðfræðilegri og siðfræðilegri hugsun samtíma vistguðfræðinga má þjappa
saman í fjögur hugtök: samstöðu – sjálfbærni – nægjusemi – jöfnuð. Samstaðan
gildir jafnt gagnvart fólki og öðrum lífverum á jörðinni, við erum öll félagar
í samfélagi jarðar og eigum að auðsýna jörðinni og náttúrunni dýpstu virð-
ingu. Sjálfbærnin er bæði af vistfræðilegum og samfélagslegum toga og kjarni
hennar sá að við manneskjur verðum að temja okkur samfélagslega lífshætti
sem gera áframhaldandi líf á jörðinni mögulegt. Brýnt er að nægjusemi verði
8 Sjá t.d. Staffan Kvassman, Samtal med den värdefulla naturen: Ett studium av miljö-
etiken hos Knud Løgstrup, Holmes Rolston III och Hans Jonas, Uppsala: Acta Universi-
tatis Upsaliensis, 1999; David Kronlid, Ecofeminism and Environmental Ethics: An
Analysis of Ecofeminist Ethical Theory, Uppsala: Acta Universitatis Upsaliensis, 2003;
Kerstin Anderson, Människan, naturen och Gud: En studie av miljöetiken i nutida
kristen teologi, Uppsala: Acta Universitatis Upsaliensis, 2005.
9 Mark I. Wallace, Finding God in the Singing River: Christianity, Spirit, Nature,
Minneapolis, Minn.: Fortress Press, 2005.
10 Sallie McFague, A New Climate for Theology: God, the World and Global Warming,
Minneapolis, Minn.: Fortress Press, 2008.
GLöTUN OG ENDURHEIMT SKöPUNARVERKSINS Í KRISTINNI HEFð