Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 21
21
Líta má á það sem vísbendingu um að þessi tilraun til að finna sam-
hljóm við hugmyndaheim og menningu aldamótanna hafi tekist að hér á
landi kom ekki til átaka milli kirkju og skóla um inntak og skipan alþýðu-
fræðslunnar eins og víða annars staðar.41 En á þessu skeiði voru fræðslu-
málin – eitt af þeim veigamiklu samfélagsmálefnum sem nútímaríkið lét
sér viðkomandi – að losna úr tengslum við kirkjuna og verða að sjálfstæð-
um málaflokki eða samfélagssviði.
Eins og síðar verður drepið á lauk afmörkuðum blómatíma aldamóta-
guðfræðinnar sem „meginstraumsguðfræði“ hér á landi um miðja 20. öld.
Þá átti hún allan tímann ákafa gagnrýnendur sem einkum komu úr röðum
leikmannahreyfingarinnar – KFUM og K og kristniboðshreyfingarinnar –
en jafnframt úr röðum presta sem aðhylltust hefðbundnari guðfræði. Þá er
áhorfsmál hversu víðtæk áhrif hennar voru á meðal almennings í landinu.
Hér skal þó drepið á einn þátt sem varpa kann ljósi á það.
Á 9. áratug liðinnar aldar var trúarlíf Íslendinga gert að rannsóknarefni
í umfangsmikilli könnun. Leitt var í ljós að um 80% þjóðarinnar gátu tal-
ist trúhneigð í einhverjum skilningi. Þegar spurt var um trú á tilvist Guðs
svöruðu um 60% jákvætt. Þá leiddi könnunin í ljós að um þriðjungur þjóð-
arinnar (33–37%) gat talist kristinnar trúar í kirkjulegum skilningi. Virtist
sá hópur samsama sig vel hefðbundnum kenningaratriðum kirkjunnar og
sótti kirkju umtalsvert betur en fólk sem stóð utan þessa hóps. Nokkuð
stærri hópur eða 42% svarenda var aftur á móti talinn aðhyllast það sem
kallað var „einkatrú“ en þar er átt við fólk sem ekki hafði þörf fyrir að
deila trú sinni með öðrum, iðka hana í samfélagi við aðra eða aðhylltist
fastmótað, trúarlegt kenningarkerfi.42 Þær aðstæður sem hér er lýst eru
ekki séríslenskar nema í því að fólk virðist hér almennt trúhneigðara en
gerist í sambærilegum samfélögum. Þá eiga þær sér fjölþættar skýringar
sem að sumu leyti er hægt að rekja langt aftur í tímann og kunna að skýrast
af félagslegum aðstæðum að hluta til.
Tengsl trúarsögulegrar þróunar og samfélagsbreytinga eru þó flókin
og því verður að grípa til fjölþættari skýringa á aðstæðum og/eða breyt-
ingum á trúarlífi þjóðarinnar.43 Því er raunhæft að spyrja hvort hér sé að
41 Pétur Pétursson, „Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni“, Kristni á Íslandi, ritstj. Hjalti
Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 197–421, hér bls. 226.
42 Björn Björnsson og Pétur Pétursson, „Trúarlíf Íslendinga: félagsfræðileg könnun“,
Ritröð Guðfræðistofnunar 3/1990, Reykjavík: Háskóli Íslands, bls. 1–244, hér bls.
34–39.
43 Sjá m.a. Guðmundur Hálfdánarson, „Til móts við nútímann“, bls. 135–136.
KIRKJA Í KRÍSU