Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 90
90
birti í blaði sínu, Nýju kirkjublaði, árið 1908. Þar eru tekin af öll tvímæli um
það hver sé mælisnúran í trúarefnum:
Miðlungsmönnunum – að þeim ólöstuðum – er það tamast að
trúa og treysta einhverju algildisvaldi, sem yfir þá er skipað og að
þeim er haldið utan frá, og á það sér eigi síður stað í trúmálum en
í öðrum efnum. Óskeikula kirkjan er einn slíkur fulltrúinn. Mikil
sveit manna skipast undir það merki. Óskeikula bókin er í annan
stað átrúnaðargoð margra. Óskeikular trúarjátningar eru enn eitt
aðhaldið fyrir fjölda manns. Það heitir svo, að þar séu sett órjúf-
anleg lög um aldur og æfi, sem auðvitað reynist hégóminn einber.
Alt þetta er ekki annað en hækjur, þegar bezt lætur, en þegar illa fer,
þá verður þetta ytra vald haft á mannsandann, hræðilegur farartálmi
á framsóknarbraut mannssálarinnar. Inni í sjálfri mannssálinni er
dómsvaldið algilda, en ekki fyrir utan hana.42
Gömul og ný guðfræði
Þegar hér er komið sögu eru línurnar í guðfræði og kirkjupólitík orðn-
ar nokkuð skýrar og þau ágreiningsefni sem hér komu fram skiptu guð-
fræðingum og kirkjulegum hreyfingum og stefnum í tvær meginfylk-
ingar í u.þ.b. hálfa öld.43 Annars vegar var nýguðfræðin sem hélt uppi
frjálslyndum viðhorfum og viðurkenndi trúarvitund einstaklingsins sem
mælisnúru. Frelsi gagnvart játningaritum var tengt almennu trúfrelsi og
áherslu nútímalegra sjónarmiða á myndugleika ákvörðunarréttar einstak-
linga á sem flestum sviðum. Auk þess kenndi þessi guðfræðistefna sig við
rannsóknarfrelsi sem bent var á að væri það eina sem kæmi til greina í
nútímalegu samfélagi sem byggði á vísindalegri þekkingu og tæknifram-
förum. Gagnvart þessari kröfu nútímans yrðu hinar gömlu trúarjátningar
að beygja sig eða víkja ella. Hugmyndir komu fram um að þjóðkirkjan ætti
ekki að kenna sig við Lúther heldur Krist og að trúarjátning hennar ætti
fremur að vera Faðirvor og fjallræða Jesú en hinar fimm hefðbundnu játn-
ingar. Þetta sjónarmið var ríkjandi í guðfræðideild Háskólans fram undir
miðja 20. öld og átti því fylgi að fagna meðal margra presta sem útskrifuð-
42 R. J. Campbell, „Gildi ritningarinnar“, Nýtt kirkjublað 22/1908 [3], bls. 33.
43 Jónas Gíslason, „Kirke og samfund i Island“; Þórunn Valdimarsdóttir og Pétur
Pétursson, „Þjóðkirkja, frelsi og fjölbreytni“, Til móts við nútímann, ritstj. Hjalti
Hugason, Reykjavík: Alþingi, 2000, bls. 199–423.
PÉTUR PÉTURSSON