Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 69
69
sem sé kúgað, valdalaust og jaðarsett vegna kynhneigðar eða kynvitundar.38
Lítum nú nánar á innihald kynverundarréttindanna eins og þau eru sett
fram í yfirlýsingu IPPF frá 200839 sem eru alþjóðleg fræðslusamtök um
kynlíf og barneignir.40
Kynverundarréttindi
Í formála ritsins Sexual rights: An IPPF Declaration ítrekar forseti sam-
takanna, Jacquline Sharpe, að kynverundarréttindi séu altæk mannréttindi
og bendir á að ákveðnum hópum hafi lengst af verið neitað um þau og því
þurfi nú að leggja sérstaka áherslu á þau. Meðal þeirra sem hún nefnir að
þurfi að njóta kynverundarréttinda er ungt fólk, transfólk, fólk sem selur
aðgang að líkama sínum, karlar sem stunda kynlíf með körlum, samkyn-
hneigt fólk, tvíkynhneigt fólk, ungar brúðir og ungar mæður.41
Yfirlýsingu IPPF er skipt í þrjá hluta: formála, sjö grundvallarreglur og
tíu greinar kynverundarréttinda. Í formála er lagður grundvöllur að inni-
haldi kynverundarréttinda. Þar eru ítrekuð tengsl IPPF við fyrri skýrslur
og skjöl á vegum Sameinuðu þjóðanna og skyldra samtaka en allir þessir
aðilar beina sjónum um þessar mundir að kynferðislegri fjölbreytni (e. sex-
ual diversity) og þeim vandamálum sem steðja að hópum og einstaklingum
sem ekki upplifa sig sem gagnkynhneigða.
38 Sama rit, bls. 22–25.
39 Kynverundarréttindunum hefur verið haldið á loft af mörgum alþjóðlegum sam-
tökum frá árinu 1999 þegar þau voru fyrst kynnt af Alheimssamtökunum um kyn-
fræði og má þar ekki síst nefna Alþjóðaheilbrigðismálastofnun Sameinuðu þjóðanna
sem birtu þau í skýrslum 2004 og 2006. Þau hafa verið slípuð til lítillega á þessu
tímabili og árið 2008 birtu bæði WAS (World Association of Sexual Health) og
IPPF (The International Planned Parenthood Federation) yfirlýsingar um þau í
skýrslum sínum.
40 Sexual Rights: An IPPF Declaration 2008, sótt 12. maí 2012 af slóðinni: http://
www.ippf.org/NR/rdonlyres/F148EF05-4CB5-4663-8ACB-F9F2DFC6429A/0/
SexualRightsShortEnglish.pdf. Hér á landi starfar íslensk deild þessara samtaka
undir heitinu Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir, sótt 12. maí 2012 af http://
www.fkb.is/Forsida/.
41 Sama rit, bls. i. Ég túlka greinarmun þann sem gerður er hér á karlmönnum sem
stunda kynlíf með körlum annars vegar og samkynhneigðu fólki hins vegar svo
að þannig sé litið á að maður þurfi ekki nauðsynlega að vera samkynhneigður til
þess að stunda kynlíf með einstaklingi af sama kyni. Í heimildinni er engin skýr-
ing gefin á því hvers vegna aðeins karlar eru nefndir en ekki einnig konur í viðlíka
aðstæðum.
KYNHNEIGð Í KRÍSU