Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Side 80
80
heilagt og forsenda náðar er í augum annars ómerkileg réttlæting verald-
legra hagsmuna. Trúarleg sannfæring liggur oft að baki gagnrýni á ríkjandi
trú og helgisiði.
Þýski félags- og hagsögufræðingurinn Max Weber fjallar um þetta atriði
í trúarbragðafélagsfræði sinni. Í framhaldi af þessari aðgreiningu þróaðist,
að hans mati, grundvöllur fyrir sérstakri áherslu á skipulag mannlegra
athafna (e. rationalization) og afhelgun hinna ýmsu sviða samfélagsins, þ.e.
aðgreiningu hins trúarlega og veraldlega en það þýddi ekki að trúin sem
slík væri afskrifuð.9 Með sínum sakramentum og dýrlingum vann mið-
aldakirkjan gegn framrás afhelgunar og aðgreiningar en siðbreytingin og
sérstaklega hinn kalvínski armur hennar, sem að ýmsu leyti dró dám af
lögmálsstrú Ísraelsmanna, fól í sér nýtt tímabil aðgreiningar og afhelg-
unar sem greiddi götu kapítalískra framleiðsluhátta og nútímavæðingar.
Max Weber talar um siðfræði mótmælenda og anda kapítalismans í þessu
sambandi.10
Þjóðfélagsþróunin á Íslandi var með öðrum hætti en í þeim löndum
sem Weber tók mið af í greiningu sinni. Iðnbylting og kapítalískir fram-
leiðsluhættir setja ekki mark sitt á atvinnulífið á Íslandi fyrr en í upphafi
20. aldar.11 Fram að þeim tíma var Ísland einhæft og íhaldssamt samfélag
bænda og embættismanna.12 Siðbreytingin fól í sér róttæka afhelgun emb-
ætta og sakramenta kirkjunnar.13 Einstaklingurinn skyldi standa ábyrg-
ur frammi fyrir Drottni sínum og gat ekki reitt sig á aflátsbréf, dýrlinga
eða fórnarmessur til að öðlast sáluhjálp. Dýrlingatrú var afnumin, helgir
dómar misstu hjálpræðisgildi sitt og helgidögum var fækkað því helgar og
hátíðir áttu eingöngu að snúast um hjálpræðisboðskap Jesú Krists.
Tveggjaríkjakenning Lúthers fól í sér hvata til aðgreiningar hins ver-
aldlega og andlega um leið og áherslan var á markvissa trúarlega innræt-
ingu. Predikun orðsins (boðun fagnaðarerindisins) var sett í fyrirrúm og
furstinn og hið veraldlega ríkisvald skyldu sjá um umgjörðina. Prestar og
biskupar (eftirlitsmenn með starfsemi safnaðanna) áttu hvorki að vasast
9 Peter Berger, The Sacred Canopy, bls. 108–123.
10 Max Weber, The Protestant Ethic and the Spirit of Capitalism, London: Unwin
University Books, 1971.
11 Heimir Þorleifsson, Frá einveldi til lýðveldis: Íslandssaga eftir 1830, Reykjavík:
Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar, 1983, bls. 153.
12 Pétur Pétursson, Religion and Social Change: A Study of the Secularization Process in
Iceland 1830–1930, Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1990.
13 Lúther fækkaði sakramentunum úr sjö niður í tvö sem hann taldi eiga sér stoð í
Biblíunni.
PÉTUR PÉTURSSON