Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 74
74
á síðari árum eins og sjá má í starfi aðgerðarsinna jafnt sem fræðimanna
sem vinna að mannréttindum hinsegin fólks.60
Ég tek undir með þeim höfundum sem nefndir hafa verið hér að fram-
an í umræðunni um kynverundarhugtakið og mikilvægi þess fyrir mann-
réttindabaráttu hinsegin fólks. Þá álít ég að kynverund manneskjunnar
og kynverundarréttindi snúi að siðfræði og kynfræði og skipti meginmáli
þegar rætt er um gagnrýni á gagnkynhneigðarhyggjuna í kristnu samhengi.
Kristin kirkja um allan heim þarf að setja sig rækilega inn í þessa orðræðu
og gildir það jafnt um íslensku þjóðkirkjuna sem aðrar kirkjur. Það er þó
ekki svo að kirkjan komi tómhent til leiks þegar ræða skal um skilning á
manninum út frá kynverund. Heildstæðan kristinn mannskilning hennar
má einmitt túlka svo að kynverund mannsins sé óendanlega mikilvægur
hluti mannhelginnar. Þau mikilvægu málefni sem hér hafa verið tekin til
umræðu og lúta að þekkingu á kynvitund og kynhneigð þarf kirkjan þó
að uppfæra til dagsins í dag. Mikil ný þekking liggur fyrir um þau málefni
af hálfu grasrótarsamtaka og mannréttindahópa eins og áður hefur verið
nefnt og þá þekkingu þarf kirkjan meðal annars að tengja hefðbundn-
um kristnum syndaskilningi í því skyni að endurskoða hann frá grunni.
Íslenska þjóðkirkjan, líkt og aðrar kirkjur, þarf að tengja stöðu hinsegin
fólks mannréttindum og mannhelgi í stað þess að halda áfram að ganga út
frá hefðbundinni guðfræði hins gagnkynhneigða hjónabands. Mannhelgi
er eitt þriggja kjarnahugtaka Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóð-
anna en það hugtak er jafnframt guðfræðilegt og sem slíkt jafnan tengt
þeirri gjöf sem hverjum manni er gefin í sköpuninni, að kristnum skiln-
ingi. Mannhelgi felur í sér griðland manneskjunnar í heiminum og merkir
að einstaklingnum, hver sem hann er, beri réttur til að vera hann sjálfur,
réttur til að móta athafnir sínar og hugsanir í samræmi við eigin upplifun,
vilja og verðmætamat. Mikið hefur skort á virðingu fyrir kynhneigð og
kynvitund einstaklinga. Þetta helgast af siðferðilegum taumhaldsramma
menningar okkar sem Gayle Rubin teiknaði svo listilega upp fyrir um 25
árum síðan. Þennan flokkunarramma þarf að leggja til hliðar því hann
gerir meira ógagn en gagn vegna gagnkynhneigðarhyggju þeirrar sem
liggur honum til grundvallar. Sá rammi sem kirkjunni, hér á landi sem
annars staðar, ber að styðjast við í staðinn verður að byggja á guðfræðilegri
og siðfræðilegri mannréttindahugsun. Það sem slík hugsun tjáir skýrt og
60 Sonia Corrêa, Rosalind Petchesky og Richard Parker, Sexuality, Health and Human
Rights, Abingdon, Oxon & New York: Routledge, 2008, bls. 159.
SÓLVEIG ANNA BÓASDÓTTIR