Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 40
40
4. Hugmyndir Hjalta Hugasonar um hlutverk kirkjunnar
í íslensku samfélagi
4.1 Aðferð og afmörkun efnis
Hjalta er umhugað að greina á milli hlutverks guðfræðinnar í orðræðu
háskólasamfélagsins og hinu kirkjulega lífi. Hann segir að spurningin um
sannleika og trúarlegt gildi hans sé ekki verkefni akademískrar guðfræði.
Hennar hlutverk sé miklu fremur að draga fram fjölbreytileika viðfangs-
efnisins í samhengi þeirrar fjölhyggju sem móti orðræðuna.30 Hún hafi
ekki „normatívar“ skyldur gagnvart viðfangsefninu innan akademíunnar,
en það hafi hún aftur á móti á kirkjulegum vettvangi.31
Í skrifum sínum leitast Hjalti við að virða þessa skiptingu. Hana ber
þó ekki að skilja sem svo að lítið samhengi sé á milli skrifa Hjalta fyrir
fræðasamfélagið eða breiðari lesendahóp. Síður en svo, í þeim er að finna
virk tengsl. Margt af því sem Hjalti reifar í dagblöðum útfærir hann síðar
í lengri fræðilegum greinum og/eða öfugt. Þetta á sérstaklega við um skrif
hans um þjóðkirkjuna og þjóðkirkjuskilninginn.32 Í þeim er skrefið frá
kirkjusögu yfir í samstæðilega guðfræði oft stutt. Þessu veldur að sagn-
fræðin er að mati Hjalta ekki fyrst og fremst umfjöllun um liðna tíð, „held-
ur sérstök sýn á veruleikann hvort sem við hugsum okkur hann í fortíð,
nútíð eða framtíð“.33 Innan sögunnar sé því mögulegt að greina kerfi, og
í samhengi fortíðar og nútíðar megi draga af þeim ályktanir um framtíð-
ina.34
30 Hjalti Hugason, „Skyldur guðfræðinnar í samtímanum“, Ritröð Guðfræðistofnunar
19/2004, bls. 45–60, hér bls. 45.
31 Sama rit, bls. 53.
32 Hjalti Hugason, „Ímynd á nýrri öld“. Í þessari fræðigrein liggur t.d. til grundvallar
fjöldi pistla sem Hjalti skrifaði í DV. Þegar greinar Hjalta eru skoðaðar má oftast
skipta þeim í tvo flokka, annars vegar þar sem fjallað er beint um stöðu þjóðkirkj-
unnar í samtímanum og hins vegar ítarlega úttekt á stöðu og þróun íslensku þjóð-
kirkjunnar á síðari hluta 19. aldar og þeirri 20. Sjá m.a. Hjalta Hugason, „Söguleg
framtíðarsýn kirkjunnar“, Kirkjuritið 63/1997, [sérrit], bls. 59–64; Hjalti Hugason,
„Ímynd á nýrri öld“; Hjalti Hugason, „Trúarhefð á Norðurlöndum í ljósi kirkjusög-
unnar“, Ritröð Guðfræðistofnunar 15/2001, bls. 57–79; Hjalti Hugason, „Samband
ríkis og þjóðkirkju á Íslandi: aðskilnaður eða áframhaldandi tengsl á nýrri öld“,
Kirkjuritið 1/2003, bls. 42–58; Hjalti Hugason, „Trúfrelsi í sögu og samtíð: jákvætt
og neikvætt trúfrelsi“, Kirkjuritið 72/2006, bls. 17–23; Hjalti Hugason, „Þjóðkirkjan
og trúfrelsi“; Hjalti Hugason, „Trúarbrögð og trúarstofnanir í upphafi 21. aldar“,
óbirt.
33 Hjalti Hugason, „Söguleg framtíðarsýn kirkjunnar“, bls. 59.
34 Hjalti Hugason, „Trúarbrögð og trúarstofnanir í upphafi 21. aldar“, óbirt.
SIGURJÓN ÁRNI EYJÓLFSSON