Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 111
111
borðinu birtust deilurnar í orðaskaki um uppruna fútúrismans, Marinetti
var óþreytandi við að lýsa yfir fæðingu heimsfútúrismans á Ítalíu en kúbó-
fútúristar fullyrtu að þeirra eigin tilraunir með tungumál skáldskaparins
hefðu komið fram á undan.
Til er athyglisvert textabrot eftir Khlebnikov og Aleksej Krútsjonykh
sem var skrifað í aðdraganda heimsóknarinnar. Textinn er m.a. forvitni-
legur fyrir þær sakir að höfundarnir falsa útgáfu ritsins Dómaragildra og
færa hana aftur til ársins 1908, þ.e. ári fyrir útgáfu stofnunaryfirlýsingar
Marinettis.26 Mikilvægari en slíkar hártoganir, sem voru markaðar af þjóð-
ernislegum viðhorfum á báða bóga, er þó sú gagnrýni á fagurfræðileg-
an aktívisma Marinettis sem finna má í textanum. Höfundarnir lofsyngja
kúbó-fútúrismann sem hreina „orðlist“ er „úthýsi hneigð og hvers kyns
bókmenntaósóma úr listaverkunum“.27 Ítalska fútúrismann telja þeir aftur á
móti hafa „gengið út frá hneigðinni“ og þeir lýsa hreyfingunni sem nýjasta
afsprengi þeirrar hefðar sem kúbó-fútúrisminn hafi bundið enda á:
Predikun sem ekki sprettur af listinni sjálfri er ekkert annað en tré
sem er roðið járni. Hver vill treysta slíku spjóti? Ítalirnir reyndust ekki
vera annað en háværir lýðskrumarar og þöglir listamannsspörvar.
Menn spyrja eftir hugsjón okkar og tilfinningu. Hún er hvorki
ruddaskapurinn né hetjudáðin, hvorki ofstækismaðurinn né munk-
urinn – í augum orðskaparans eru allir Talmúdar jafnslæmir, eina
hugsjón hans er orðið (sem slíkt).28
Þannig kenna Krútsjonykh og Khlebnikov texta ítölsku fútúristanna við
ribbaldahátt og ofstæki og tefla gegn honum því fagurfræði kúbó-fútúr-
ismans, þar sem tilraunakennd ljóðagerðin byggi ekki á fyrirframgefnum
kreddum heldur spretti á lífrænan hátt úr skáldskapnum sjálfum. Í kúbó-
fútúrismanum hefur manifestóið því ekki stöðu textamiðils er þjónar sem
drifkraftur nýrrar fagurfræðilegrar starfsemi, heldur þjónar það fyrst og
fremst sem skýringarrit og vitnisburður um hina eiginlegu og ósviknu
skáldlegu iðju.
26 Aleksej Krútsjonykh og Velimir Khlebnikov [Алексей Крученых; Велимир
Хлебников], „Слово как таковое“, Собрание сочинений в трех томах, 3. bindi,
bls. 175–176, hér bls. 175; Aleksej Krútsjonykh og Velimir Khlebnikov [Aleksej
Kručonych; Velimir Chlebnikov], „Das Wort als solches“, þýð. Peter Urban, Ma-
nifeste und Proklamationen der europäischen Avantgarde (1909–1938), bls. 69–70, hér
bls. 69.
27 „Слово как таковое“, bls. 175; „Das Wort als solches“, bls. 69.
28 „Слово как таковое“, bls. 176; „Das Wort als solches“, bls. 69.
AF GOðKYNNGI ORðSINS