Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2012, Blaðsíða 94
94
uðir meðal Íslendinga í Vesturheimi litu einnig til hans sem trúarleiðtoga
og gerðu ítrekaðar tilraunir til að fá hann vestur til prests- og kennslu-
starfa. Hann hafði mótandi áhrif á nemendur sína og naut mikilla vinsælda,
ekki síst meðal yngri guðfræðinga og presta. Það mun ekki ofsagt að hann
hafi verið karismatískur leiðtogi og að um hann hafi orðið til aðdáenda-
hreyfing (költ) og talað hefur verið um að um hann hafi myndast trúarleg
vakning í landinu. Um hann hafði safnast óformlegur söfnuður sem sótti
kirkju til hans reglulega en hann predikaði hálfsmánaðarlega í Fríkirkjunni
í Reykjavík frá árinu 1914 til dauðadags árið 1928. Haraldur lagði mikla
áherslu á skoðanafrelsi, rannsóknafrelsi og trúarreynslu og tefldi henni
gegn játningum og forræði kirkjuhefðar í trúarlífi fólks. Undir leiðsögn
hans og Einars H. Kvaran var komið í veg fyrir að Sálarrannsóknafélag
Íslands, sem stofnað var árið 1918, yrði að trúarhreyfingu sem klyfi sig
frá þjóðkirkjunni. Umgjörð þess og ímynd var mótuð af rannsókna- og
vísindamennsku eins og forvera þess, Tilraunafélagsins, sem stofnað var
árið 1904. Í ljós hefur komið að í þessu félagi hélt Haraldur guðsþjón-
ustur og flutti predikanir eins og um kirkjuguðsþjónustur væri að ræða.53
Predikunarstarfsemi hans í Fríkirkjunni var í raun framhald af þessum
guðsþjónustum í Tilraunafélaginu. Þessi umgjörð hindraði þó ekki að
Sálarrannsóknarfélag Íslands var að mörgu leyti trúarlegs eðlis og hafði
ómæld áhrif á trúarlíf og trúarskoðanir landsmanna enda gaf það út vinsælt
tímarit (Morgunn, frá 1919) og skipulagði miðils- og skyggnilýsingafundi
vítt og breytt um landið.
Þytur heilags anda
Haraldur Níelsson varð andlegur leiðtogi fólks sem að ýmsu leyti hafði
ólíkar skoðanir í trúmálum en til fylgismanna hans töldust guðspekingar,
únitarar, spíritistar og efahyggjumenn. Fólk sem var að glíma við sorg og
ýmisleg andleg og trúarleg vandamál leitaði mikið til hans sem sálusorg-
ara. Hann tók mark á trúarreynslu fólks og honum var eiginlegt að sýna
öllum sem þjáðust samúð og hluttekningu. Persónulega trú á Jesú Krist,
sem upprisinn frelsara manna, taldi hann mikilvæga fyrir mótun persónu-
leikans og ekki síður fyrir mótun borgaralegs siðgæðis og uppbyggilegs
hugarfars og kærleiksríkra samskipta.54
53 Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum. Ævisaga Haralds Níelssonar, Reykjavík:
Hið íslenska bókmenntafélag, 2011, bls. 201.
54 Pétur Pétursson, Trúmaður á tímamótum, bls. 319–341.
PÉTUR PÉTURSSON