Skagfirðingabók - 01.01.1992, Blaðsíða 32
SKAGFIRÐINGABÓK
Bimi og Guðlaugu 1901 til 1904. Síðar bjuggu þau á Grófargili
allmörg ár.
Jakobína Sveinsdóttir er fyrst í manntali á Sveinsstöðum
1886: „7 ára, stafar, tökubarn“ er skrifað í kirkjubók, en hún
mun hafa komið árið áður, 1885, því móðir hennar dó í byrjun
þess árs. Jón Jónsson, síðar bóndi á Eyvindarstöðum í
Blöndudal, og Páll Reykjalín, voru á Sveinsstöðum, en óvíst
hve lengi.
Áður hefur verið sagt frá Páli Kristjánssyni og Sigurlaugu
Árnadóttur, og verður nú haldið áfram frásögn hennar.
Sigurlaug Brynjólfsdóttir var 8 ára þegar hún kom að Sveins-
stöðum 1877. Þegar hún var 10 ára, 1879, var baðstofan endur-
byggð. Sigurlaug vakti þá yfir túni og svaf eitthvað á daginn.
Einn daginn vaknaði hún við það, að verið var að rífa þekjuna
af baðstofunni.
Gamla baðstofan var alveg á sama stað, sneri austur og vestur,
með gluggum mót suðri. Hún var í þremur hólfum, gengið inn
í fremsta hólfið að norðan úr göngum. I því hólfi var torfgólf,
en baðstofan innar alþiljuð. Fremsta hólfið var eitt stafgólf og
eitt rúm þar undir stafni. I miðbaðstofu voru tvö rúm, sitt undir
hvorri hlið, og var hún líka eitt stafgólf. Hjónahúsið var austast,
tvö stafgólf að stærð. Tvö rúm voru undir stafni, en þriðja rúm-
ið við norðurhlið móti suðurglugga. Rúmin undir stafninum
voru lokrekkjurúm. Stag var strengt á slá eða bita fyrir ofan
rúmin, og hringar með koparlit, á stærð við giftingarhringa,
voru á staginu, og á þessa hringa fest tjöld, kölluð sparlök, sem
voru dregin fyrir þegar við átti. Björn og Guðlaug sváfu í rúm-
inu nær glugganum, en Jóhannes sonur þeirra í hinu. I rúminu
við norðurþil svaf Steinunn Björnsdóttir, roskin kona.
Steinunn Björnsdóttir var húskona á Sveinsstöðum nokkur
ár. Hún var tvígift. Fyrri maður hennar var Stefán Jónsson. Þau
bjuggu á Sveinsstöðum 1846 til 1851 og í Breiðargerði 1851 til
1862. Þau áttu þrjú börn: Kristínu, Guðrúnu og Eyjólf. Seinni
maður Steinunnar hét Þorsteinn Þorsteinsson, meðhjálpari í
30