Skagfirðingabók - 01.01.1992, Blaðsíða 146
SKAGFIRÐINGABÓK
ætlaði hann heim á sunnudagsmorgni. Þá var þar staddur
Sigurður Einarsson,3 uppalinn í Stokkhólma og gjörkunnugur
Vötnunum og ætlaði austur yfir. Sagðist hann hafa séð brot á
Vötnunum austur af Mikleyjartanga og vildi að þeir athuguðu
þetta vað, því þetta var stytzta leið. Var Stefán þessu samþykkur
og þeir báðir á traustum hestum. Riðu þeir Vötnin á broti þessu,
sem var að vísu tæpt, en svo grunnt, að varla vætti kvið. Hafði
brot þetta komið þá um vorið. Næsta vor, er Vötnin uxu mikið,
hvarf vað þetta og voru Vötnin ekki riðin þar, hvorki fyrr né
síðar á þessari öld. Þessa vaðs er getið eingöngu til að sýna, hve
vöð voru fljót að koma og hverfa, þar sem straumur var mikill.
Mikleyjarvað. Það var, að kalla mátti, beint austur af Mikley
í Hólmi og þó líklega ívið sunnar. Þarna hafði verið vað a.m.k.
alla 19. öldina og oftast nær allgott. Hélzt vað þetta til þess, er
Vötnin breyttu farvegi um 1940 og renna öll vestan við svokall-
aðan Ferjuhólma, en féllu áður austan við hann. Fékk hólminn
nafn af því, að þegar dragferja var á Akrahyl, lagðist ferjan að
hólma þessum og á honum var byggður traustur trébúkki, jarð-
vegsfylltur (sandhnausar). Vestri endi ferjustrengsins var vafinn
um búkkann og bilaði aldrei. Vestan við Ferjuhólmann var smá-
kvísl, en óx mjög í stórflóðum 1925 og 1934. Úr því féllu öll
Vötnin í kvíslina og var svo komið um 1940 og vaðið þá horfið.
Mikleyjarvað var um aldamótin og til 1925 afbragðs vað; ágæt-
ur botn og ekki straummikið. Um 1920 var þónokkrum sinnum
farið með flutning á kerru og tókst vel.
Um eða fyrir 1913 að haustinu fór sá, er þetta ritar, vestur yfir
með þrevetran sauð við hönd sér, og austur yfir aftur þann sama
dag með veturgamlan hrút, vænan; hafði kindakaup vestan
Vatna. Þá voru Vötnin varla í hné á manni.
Mikleyjarvað var lengur fært en mörg önnur vöð, þó vöxtur
væri í Vötnunum (hliðstætt því var þó Vallavað). Hjálpaði til
3 Sigurður Einarsson varð síðar bóndi í Flugumýrarhvammi, Stokkhólma og á
Hjaltastöðum.
144