Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Qupperneq 76
75
dæmis kotbændur og leiguliðar þurft að vinna upp í skuldir sínar án þess
að hafa almennilegt val um annað, sem og ýmsir aðrir sem eru illa staddir
fjárhagslega. Áhrifaríka lýsingu af slíku er að finna í skáldsögu Torgnys
Lindgren Naðran á klöppinni. Sagan gerist í Svíþjóð á 19. öld og segir frá
leiguliðafjölskyldu sem er undir hælnum á kaupmanninum vegna óupp-
gerðrar skuldar sem virðist aldrei takast að borga upp, sama hvernig árin
líða. Kaupmaðurinn vill svo helst fá greitt í kynlífsþjónustu kvennanna í
fjölskyldunni og yngir þar upp með árunum. Vegna skuldarinnar er fjöl-
skyldan á hans valdi og fær lítið að gert.15
Skuldir eru samfléttaðar valdi, ekki aðeins valdi eins yfir öðrum eða
valdi efri stétta yfir þeim neðri, heldur togast ýmislegt á í okkar eigin
hugmyndaheimi þegar við hugsum um skuldir. Þannig hefur okkur flest-
um verið innrætt að okkur beri að standa skil á skuldum okkar, annað sé
ábyrgðarleysi og skammarleg hegðun, en hins vegar getum við fundið til
vanmáttar þegar kemur til þess að greiða skuldir sem bera háa vexti eða
þótt ósanngjarnt að einhver eigi að greiða skuld sem ljóst sé að hann ráði
ekki við að greiða og vafasamt sé að hann hafi beinlínis sjálfur stofnað til,
eins og stundum hefur verið uppi á teningnum varðandi skuldir þróun-
arríkja. Vald lánardrottins yfir skuldara þarf ekki endilega að felast í að
hann hneppi hann bókstaflega í þrældóm, eins og dæmið úr bók Lindgrens
sýnir glöggt, og valdið getur líka verið fjárhagslegt þannig að skuldarinn sé
bundinn af því að vinna fyrir skuldum sínum þótt hann sé ekki með bein-
um hætti í vinnu fyrir þann sem lánaði honum féð.16
Vinnuafl sem slíkt hefur líka gengið kaupum og sölum með beinum
hætti eða verið verðmetið. Þannig hefur þrælaverslun tíðkast á ýmsum
tímabilum mannkynssögunnar og á hinum ýmsu svæðum. Í Grágás er
15 Torgny Lindgren, Naðran á klöppinni [ormens väg på hälleberget, 1982], þýð. Hannes
Sigfússon, Reykjavík: Mál og menning, 1991.
16 Því hefur verið haldið fram að með vaxandi ójöfnuði og veikari stöðu launþega á
vinnumarkaði á Vesturlöndum á undanförnum áratugum hafi vinnandi launþegar
orðið háðari lánastofnunum í tilraunum sínum til að ná endum saman og ríkjandi
hagkerfi sé einhvers konar skuldahagkerfi sem nærist mest á þeim sem megi síst
við því. Sjá t.d. Silvia Federici, „From Commoning to debt: Financialization,
Microcredit, and the Changing Architecture of Capital Accumulation“, The South
Atlantic Quarterly, vor 2014, bls. 231–244; Lisa Adkins og Maryanne dever,
„Housework, Wages, and Money. The Category of the Female Principal Breadw-
inner in Financial Capitalism“, Australian Feminist Studies 29(79), 2014, bls. 50–66.
Federici gagnrýnir einnig smálánastarfsemi til kvenna í þróunarríkjum sem hún
segir að komi þeim í mörgum tilfellum í mikil vandræði auk þess sem hörðum
aðferðum sé oft beitt við að innheimta skuldirnar.
BLÓðSyKUR, ViNNUViKUR, MæLiSTiKUR