Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 157
156
Raunin var önnur. Einelti Vantrúar birtist ekki síst í þessari staðreynd,
en forsprakkar félagsins ofmátu félagslega stöðu Bjarna og stuðningsnetið
sem hann gæti reitt sig á. Fyrstu mánuðina í sálfræðistríðinu mikla stóð
Bjarni einn að vörn sinni þótt tuttugu og tveir kennarar og doktorsnemar
á Hugvísindasviði mótmæltu vinnubrögðum siðanefndar HÍ á fundi 30.
apríl 2010, tæpum þremur mánuðum eftir að kærurnar voru lagðar fram.62
Það er ekki fyrr en í september sama ár að hópur kennara fer markvisst
að vinna að máli Bjarna með því að undirbúa sjálfstæðar greinargerðir
um glærurnar, akademíska kennsluhætti og forsendurnar sem búa að baki
þeim.63 Um svipað leyti tók Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður
að sér að reka mál Bjarna frammi fyrir siðanefnd HÍ. Fram að þeim tíma
hvíldi vörnin fyrst og fremst á herðum Bjarna – og svo einnig mínum frá
seinni hluta apríl 2010.64
Það er einnig óneitanlega sérkennilegt að svo margir vantrúarfélag-
ar sem tjá sig um málið á umræðuþræðinum skuli telja Stefán Einar
Stefánsson og aðra opinskáa gagnrýnendur félagsins málpípur Bjarna
62 Í yfirlýsingunni frá 30. apríl 2010 er að finna þessi orð: „Í ljósi þeirra umræðna sem
urðu á fundinum er það álit undirritaðra að ekkert réttlæti þá ákvörðun Siðanefndar
að birta áfellisdóm í formi „sáttatillögu“ um kennslu Bjarna Randvers í tölvupósti
frá formanni nefndarinnar, rituðum 16. apríl 2010. Sá áfellisdómur var kynntur
kærandanum, Reyni Harðarsyni, en ekki hinum kærða. Siðanefnd virti hvorki
andmælarétt Bjarna Randvers, né aflaði sér gagna í málinu, áður en hún kvað upp
úrskurð sinn, þó svo að starfsreglur hennar kveði á um slíkt. […] Á því leikur enginn
vafi að í tölvupósti formanns Siðanefndar felst áfellisdómur sem getur reynst Bjarna
íþyngjandi. Fundurinn hvetur því nefndina til að taka kæruna fyrir sem fyrst með
formlegum hætti, ef sættir nást ekki, svo að hægt verði að skera úr um í eitt skipti
fyrir öll réttmæti þeirrar kæru sem lögð hefur verið fram. Sérstaklega hvetja fund-
armenn Siðanefndina til að kynna sér þá ítarlegu greinargerð sem Bjarni Randver
setti saman um kennslu sína, en formaður Siðanefndar vildi ekki taka við.“
63 Höfundar greinargerðanna eru: Arnfríður Guðmundsdóttir prófessor í guðfræði;
Ásdís Egilsdóttir prófessor í íslenskum miðaldabókmenntum; Benedikt Hjart-
arson aðjunkt í almennri bókmenntafræði; Bergljót S. Kristjánsdóttir prófessor
í íslenskum bókmenntum; Gauti Kristmannsson dósent í þýðingafræði; Gunn-
laugur A. Jónsson prófessor í guðfræði; Höskuldur Þráinsson prófessor í íslenskri
málfræði; Jón Ólafsson prófessor, forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst
og fyrrverandi forstöðumaður Hugvísindastofnunar HÍ; Kristinn Ólason fyrrver-
andi stundakennari í guðfræði; og Sigurður Pálsson stundakennari í guðfræði og
menntunarfræðum.
64 Bjarni Randver leitaði fyrst til mín 23. apríl 2010. Á þeim tímapunkti þekkti ég hann
ekkert, en hafði bæði sterk og persónuleg tengsl inn í siðanefndina sem vissulega
settu svip á allan málareksturinn. Bjarni segir sjálfur að sú róttæka samfélagsrýni
sem birtist í pistlum mínum í Lesbók Morgunblaðsins á árunum 2001 til 2009 hafi
ráðið ferðinni þegar hann kom að máli við mig.
GuðNi ElíssoN