Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1966, Blaðsíða 127
MÚLAÞING
123
þjóðkirkjunnar, sem til samkomulags mætti verða við þá, sem
óánægðir væru.
Fyrri ræðumenn tóku aftur til máls og nokkrir fleiri, þeirra
meðal Þorsteinn Erlingsson ritstjóri. Kvaðst hann ekki reiðubúinn
að taka þátt í fríkirkjustofnun að svo komnu, en skoraði á fundar-
menn að segja ákveðnar til um það, sem á milli bæri. Komu fram
lítil svör við því.
Við atkvæðagreiðslu um fríkirkjustofnun komu fram 22 atkv.
með, en 8 á móti.
Þrátt fyrir það þótt undirtektir fundarins til fríkirkjustofnunar
væru ekki meiri en þetta — eflaust mikið minni en fundarboðend-
ur hafa vænzt — og umræðurnar daufar (að sögn Bjarka), var
kosin nefnd til að halda málinu vakandi. Kosnir voru Sigurður
Einarsson málshefjandi, Jóhann á Gnýstað, Sveinn Jónsson Brim-
nesi, Kristján Hallgrímsson hóteleigandi, Kristján Jónsson Nóatúni,
Sigurður Johansen kaupmaður og Þorsteinn Erlingsson.
En þótt þessi nefnd væri fjölmenn og vel skipuð, fara engar sög-
ur af gerðum hennar né frekari tilraunum til fríkirkjustofnunar
í prestakallinu.
Það kom fram á fundinum, að einhverjir Syðfirðingar höfðu
þá verið búnir að leysa sóknarbandið og segja skilið við þjóð-
kirkjuna. Prestsþjónustu til aukaverka leituðu þeir til Mjóafjarð-
arprests. Meðal þeirra, sem leyst höfðu sóknarbandið, hafa eflaust
verið þessir „Nokkrir Seyðfirðingar,“ sem til fundarins boðuðu.
Og þótt umræður væru spaklegar frá beggja hálfu og fríkirkju-
menn þættu tregir til máls og presturinn þættist óvitandi um nokk-
urt ólag í sarnbúð prests og safnaðar, mun hafa verið allheitt undir
niðri af beggja hálfu. Málið átti sína forsögu, þannig vaxna að
hvorugur aðilinn hefur þótt sér henta að ýfa ógróin sár.
FORSAGAN
Forsagan er þessi. Séra Björn Þorláksson fékk Dvergasteins-
kall vorið 1884. Hann var skyldurækinn embættismaður, fjárhyggju-
maður fyrir sig og kirkju sína og kappsfullur, ef á milli bar. Komst
hann brátt í deilur og málaferli við ýmsa aðila, sem orðfleygt varð,