Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1966, Blaðsíða 44
42
MÚLAÞING
og næsta fáir, sem höfðu miklum efnum að flíka, þótt það væri
bjargálna fólk og vel virt í sinni stétt. Var flest af því bændafólk
og margir vel hagir. Gekkst ættin meir við frá fyrri konu börnum
Guðmundar en hinni síðari, enda fór fleira af þeim ættlið til Ame-
ríku en hinum. Olöf stóð nú uppi í Krossavík, ekkja, barnlaus,
fimmtug að aldri, langt að komin í sveitina og frændur flestir
fiarri. Margir hefðu tekið þann kost að selja nú miklar eignir og
flytja á frændaslóðir upp á hæga daga. Það gerði Ólöf ekki. Nú
hafði hún dvalið 21 ár í Krossavík við góðan hag og virðingar,
og hún fann það, að hún stóð í Krossavík í framhaldi þess og bund-
in þeim anda, sem um langa tíð hafði látið færa góðri sögu frá
Krossavík. Undan því merki gat hún ekki farið, fyrr en yfir lyki.
Hún hélt ótrauð áfram búskapnum. Nú var hún sjálfráð að öllu.
Nú gat hún gefið, án þess að Oddi þætti verra að sjá það, og þess
vegna gaf hún í nafni Odds. Hún bjó við mikla rausn og lét ekki
hallast búskapinn, gaf og liðsinnti og hafði allra lof og virðingu.
En er líða tók á ævi hennar, virtist það koma í ljós, að hún ætlaði
að hafa það eins og Þórunn María, að láta ekki skipta eftir sig
rniklu fé. Hún fóstraði upp börn, en ekki verður það séð, að neinu
af þeim hafi hún ætlað að taka við Krossavík eftir sinn dag með
arfleiðslu. Þau voru óskyld henni og Krossavíkurfólki, flest börn-
in, sem vitað er um að hún fóstraði, og virtist hún hafa tekið börn-
in eingöngu með tilliti til þarfar þeirra á fóstrinu. Steinunn hét
stúl'ka Jóhannesdóttir, er hún tók til fósturs af fátækum foreldrum,
og að einhverju ól hún líka upp Björn son Ásbjarnar Jónssonar.
Þau Steinunn og Björn efndu nú til hjúskapar, og á þeirra brúð-
kaupsdegi gaf hún þeim Egilsstaði, 21 hundr. jörð. Það var 1881.
Það var silfurskeiðajörðin fræga, að sögu Vopnfirðinga, sem þetta
fólk hafði nú átt í 99 ár. Sagt var, að á sama hátt hefði hún gefið
þrjár jarðir, en ekki finn ég heimild fyrir því, enda ekki kannað
fyllilega gögn, sem hér kunna að vera fyrir hendi.
Þegar kom fram yfir miðjan 9. áratug aldarinnar og Ólöf var
orðin 70 ára að aldri, fór hún að þreytast á búsýslunni. Arferði
var hið versta á þessum tíma, alls staðar vont, en miklu verst við
sjávarsíðu landsins, þar sem Krossavík var. Fósturbörn hennar voru
nú farin. Fólkið þusti til Ameríku allt í kringum hana, þar á meðal