Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 26
24
MULAÞING
erindið. Hann tók okkur vel, en sagðist þó alls ekki hafa búist við að
nokkur kæmi, kvaðst vera byrjaður á íshúsbyggingunni, hafa tekið út
viðinn og gefið öðrum verkið, en með því að við værum komnir alla leið
frá Ameríku eftir sínum tilmælum, þá ætlaði hann að taka annan okkar
— meira gæti hann ekki — og ætti ég að verða sá er hann tæki, af því að
ég hefði komið þessu á gang. Þar að auk vorum við Tryggvi áður
kunnugir. Þegar hér var komið sögunni leist mér ekki á blikuna fyrir
Jóhannesi. Hann var kominn hingað frá Ameríku undir blávetur, og var
því auðsjáanlegt að hann hlaut að verða atvinnulaus til næsta sumars.
Aftur var ég búinn að hreyfa íshúsmálinu á Austurlandi, eins og áður er
sagt, og vissi að ég gat fengið þar atvinnu strax ef ég kæmi til baka. Ég
bauð því Tryggva að ég skyldi fara, en Jóhannes yrði eftir, og varð það
að samningi. Þannig vildi það til að ég fór með ,,Thyru“ til baka vestan
um land til Seyðisfjarðar. Þangað kom ég seint í október.
Síra Björn og Skafti
Á leiðinni austur kom ég við á Sauðárkrók og Akureyri. Var ég þar
flestum ókunnur; þó hreyfði ég íshúsmálinu á báðum stöðunum, en
enginn vildi neitt um það heyra. En þegar ég kom til Seyðisfjarðar aftur
sagði Skafti ritstjóri mér að síra Björn Þorláksson á Dvergasteini vildi
gjarnan finna mig og tala við mig um málið. Ég fór því þangað
tafarlaust, og er ég fann síra Björn heyrði ég að hann hafði kynnt sér
málið. Var hann mjög áfram um að máfinu væri hreyft. Var þegar kaffað
til fundar að Dvergasteini. Fundurinn var mjög vel sóttur. Síra Björn
skýrði fyrir mönnum málið og sýndi mjög áþreifanlega fram á hvaða
tjón það væri fyrir sjávarútveginn að geta ekki tryggt sér beituna. Þá gat
hann þess, að nú væri kominn maður vestan frá Ameríku, er byðist til
að byggja ís- og frystihús, sem þeir gætu geymt í síldina til beitu fyrir
lengri tíma. Hvað kostnaðinn við þetta snerti, þá væri hann ekki
teljandi í samanburði við gagnið. Við töpum, sagði hann, 5000 krónum á
einum degi við það að allir bátarnir, er róa úr Seyðisfirði, verða að sitja í
landi fyrir beituleysi. — Það sumar reru 120 bátar úr firðinum. Þegar
málið hafði verið rætt fram og til baka varð niðurstaðan sú að safna
hlutum, og kom saman þar á fundinum í loforðum 1700 krónur. Tveim
dögum síðar var byrjað á íshústóft úr torfi á Brimnesi. Það var 2. nóv. er
verkið var byrjað. Tóftin komst upp um haustið, og var ísi fyllt um
veturinn.