Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 38
36
MÚLAÞING
kr. Guðmundur Guðmundsson á Hesteyri lánar félaginu þá fjárhæð
gegn 6% ársvöxtum og greiðist lánið upp fyrir nýjár 1918. Húsið var
notað í mörg ár eftir þetta. Mánaðarlaun verkamannsins voru þetta ár
ákveðin 50 kr. í júní og 100 kr. á mánuði frá 1. júlí. Þegar þetta hvort
tveggja er haft í huga og borið saman við kaupverðið á hlut Konráðs
verður að telja, að hann hafi verið rýmilegur við gömlu sveitungana,
þegar hann seldi þeim hlut sinn á 150 krónur.
Hlutafélagið Jaki
Eins og fram kemur í kaflanum hér á undan, nær gerðabók Frosthúsfé-
lags Mjóafjarðar fram á árið 1925. Fundargerðir Jaka eru færri, enda
starfaði félagið aðeins fá ár.
Föstudaginn 8. janúar 1926 er „fundur haldinn í Frosthúsfélagi
Mjóafjarðar.“ En í raun er það undirbúningsfundur að stofnun h.f.
Jaka.
,,Efni fundarins var að ræða um endurbætur á húsum félagsins, þar
sem ískjallarinn var hruninn og brotinn,“ segir í fundargerð. Hjálmar
Vilhjálmsson á Brekku var frummælandi á þessum fundi. Hann rakti
sögu félagsins og starfsemi, hvatti til áframhaldandi reksturs og lagði
fram tillögu um ,,viðreisn“ félagsins: Virða gömlu hlutina til peninga.
— Safna áskriftum til nýrra hluta — og endurskoða reglur félagsins.
Skyldi þessu lokið í janúar.
Þá lagði Hjálmar fram ítarlegar tillögur um endurbyggingu ískjallar-
ans. Skyldu veggir hækkaðir um V/4 alin í ca. fjögurra metra hæð og
,,frystihúsið“ félli þá inn í suðausturhorn ískjallarans.
Tillögurnar fengu góðar undirtektir. Voru þær að umræðum loknum
allar samþykktar og nefndir kosnar til að annast hina ýmsu þætti.
Vilhjálmur Hjálmarsson mætti á þessum fundi. Hann var þá 75 ára og
lést næsta sumar. Um þátttöku hans í þessum fundi segir í fundargerð:
,,Þá kom fram munnleg tillaga frá Vilhjálmi Hjálmarssyni um það að
ganga til atkvæða hvort reisa skuli húsið eða ekki.“ — Og síðar segir:
,,Þá kom fram tillaga frá Vilhjálmi Hjálmarssyni um það að kjósa
þriggja manna nefnd til að sjá um bygginguna.“ Fyrri tillagan var
samþykkt samhljóða og nefndin kosin.
Ætla má að þetta hafi verið í síðasta skipti sem Vilhjálmur sat fund
með sveitungum sínum því hann var heilsuveill síðustu misserin sem
hann liíði. Er innlegg hans á þessum fundi nokkuð eftirtektarvert og
bendir til þess að hann hafi gjarnan verið afgerandi í tillögum sínum.