Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 69
MÚLAÞING
67
Þetta tafði okkur mikið, en ekki tjóaði að fárast yfir því, og nú tókum
við stefnu beint á Hallormsstað. Þegar við vorum á móts við Strönd var
komið myrkur. Þá tókum við eftir því að þar voru smáfannir hér og
þar á ísnum, en við héldum áfram og vorum komnir nokkuð inn fyrir
Mjóanes, þegar það gerist allt í einu að ísinn brestur undan okkur og við
lendum í fljótið samtímis. Við höfðum gengið hlið við hlið, og vorum því
báðir í sömu vökinni. Það vildi okkur til lífs að við náðum með
höndunum upp á skörina og gátum krækt olnbogunum upp á ísinn,
síðan öðrum hælnum. Gekk furðu vel að komast upp með þessum
hætti. Ekki man eg til þess að við yrðum neitt hræddir meðan á þessu
stóð, en þegar við vorum komnir upp fórum við að hugsa málið. Við
sáum að snjórinn á ísnum óx til mikilla muna eftir því sem innar dró.
Staf höfðum við ekki til að prófa fyrir okkur og tókum því það ráð að við
fórum að höggva skautunum niður í ísinn. Kom þá í ljós að þar sem
snjór var á ísnum, var hann ekki nema örþunnt skæni og alfs ekki
mannhelt. Þá fór nú heldur að fara um kappana.
Við vorum þarna úti á miðju Lagarfljóti á ónýtum ís, staílausir í
náttmyrkri. Okkur var fullkomlega ljóst að við vorum í lífshættu, ísinn
var svo veikur að hann gat svikið okkur hvar sem var.
Nú tókum við þá ákvörðun að reyna að rekja okkur í land og stíga
aldrei á snjó. Það var tafsamt og vandasamt, því ekki var auðvelt að
komast hjá snjónum. Gengum við nú nokkurn spöl til baka og leituðum
að snjólausri leið í land. Við höfðum það langt á milli okkar að við
færum ekki báðir niður samtímis. Sums staðar skriðum við yfir þar sem
okkur fannst ísinn veikastur, hjuggum skautunum niður öðru hverju —
og eftir miklar krókaleiðir náðum við landi hjá Freyshólalæk. Það voru
fegnar sálir sem þar stigu á land og fundu frosna jörð undir fótum.
Við fórum upp á bílveginn sem er þarna rétt fyrir ofan og gengum
hann áfram inn eftir. Þegar við komum inn að túnhliðinu á Hafursá,
sáum við að fljótið var alautt þar fyrir innan. Hafði aldrei komið ís í það
um veturinn þaðan og upp í fljótsbotn. Isir.n endaði svo sem einum og
hálfum kílómetra innar en við tókum land. Við höfðum því nærri verið
búnir að ganga í autt íljótið. Það skall hurð nærri hælum, ef við hefðum
gengið örlítið lengra er hætt við að við hefðum misst af dansinum í
kvennaskólanum.
Það var að sjá að skólameyjunum geðjaðist vel að okkur. Þegar
frídans var fyrir dömur, vorum við alltaf dregnir fyrstir út á gólfið — og
að sjálfsögðu vorum við harðánægðir með það. Okkur kom saman um
að við hefðum fengið fullgoldna þá lífshættu sem við lentum í.