Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Qupperneq 80
78
MÚLAÞING
„Þetta er svo fínt og svo meinlaust að enginn hefur ástæðu til að setja
út á það,“ hefur blaðstjórinn að líkindum hugsað í hjarta sínu, þegar
hann setti fram þessar setningar. Af mér er nú það að segja, að þegar ég
las þessa litlu umtöluðu grein í ,,Austra“ datt mér í hug úlfurinn í
sauðargærunni og er þó göfugra að hreyta að náunga sínum jafnvel
skammaryrðum sem allir hljóta að skilja, heldur en setja fram óljósar
setningar, sem þó auðsjáanlega geta leitt alþýðu til villu og hleypidóma,
ekki síst þegar efnið varðar trúmál, því það mun veikasta hlið flestra að
verða þar ómildir í dómum ef einhver breytir þar til. En það veit
hamingjan, að það kemur í hlægilega mótsögn við alvöruleysið, dauð-
ann og deyfðina og afturförina sem allir vita að ríkir í þjóðkirkjunni.
Nú leyfi ég mér að benda ritstjóranum á hvernig hann hefði átt að rita
um þetta umtalaða efni, án þess að gera rangt, því vafalaust setur hann
sig ekki út til þess að breyta móti betri vitund og víst kallar hann sig
kristinn?
Ritstjórinn hefði mátt skýra málið með því að segja, að fjórum síðustu
versunum hefði verið sleppt úr sálminum ,,Allt eins og blómstrið eina“
fyrir samkvæmnis sakir, af því að í þeim eru sterklega framhafin þau
trúaratriði sem bæði eru í mótsögn við þá trú sem hinn látni fylgdi og
ekkja hans sömuleiðis er á móti.
Heldur Skafti Jósefsson að ég þori ekki að játa bæði fyrir honum og
öðrum mönnum að ég er hætt að segjast trúa því úr barnalærdómi
mínum sem ég gat ekki lengur trúað? Að breyta svona til eða stíga slíkt
spor sem ég hef stigið í þessu efni gerir enginn maður, sem hugsar
alvarlega, eftir stutta umhugsun heldur eftir margra ára innri baráttu,
og í öðru lagi gerir enginn maður shkt nema af þeirri gildu ástæðu, að
hann álítur það rétt og aí því að hann hefur fengið stranga óbeit á að
hræsna. Það sýnist nógu mikill ábyrgðarhluti að hræsna fyrir mönnum
hvað þá fyrir sjálfum guðdóminum.
Eg lýsi hér yfir þeirri skoðun minni, að þeir menn sem ekki virða að
neinu hreinskilni og sannleiksást í fari meðbræðra sinna og systra, og
fóttroða frjálsa hugsun eða sönn mannréttindi, geti ómögulega talist
með menntuðum mönnum og vildi ég mega færa þá inn í tölu ferfættu
dýranna eða fremur skorkvikindanna.“
Fráfall mikils mannkostamanns og eiginmanns á besta aldri var
vissulega ærið áfall fyrir Arnbjörgu og börn hennar, þó ekki bættust við
þau eftirköst sem nú var getið. I þeim raunum koma eiginleikar
Arnbjargar, hispurslaus hreinskilni, kjarkur og rökvísi, e. t. v. betur í
ljós en í öðrum heimildum sem mér eru kunnar um líf hennar og störf.