Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Page 106
ÞÓRGNÝRGUÐMUNDSSON
Þættir úr skólasögu Eiðahrepps 1927-1939
Tileinkað nemendum mínum
Nokkur formálsorð
Fyrir nokkrum árum ritaði ég ágrip af skólasögu Aðaldals. Birtist það í
Árbók Þingeyinga árið 1974. Að vísu hefði átt betur við að byrja á
þessum þáttum, því að í Eiðahreppi hóf ég mitt kennarastarf. Reyndar
var ekki ætlunin að gera æskulýð Eiðahrepps að olnbogabörnum.
Ef til vill verður þetta samt betri kosturinn þegar til kastanna kemur.
Smiðsgallar kynnu að verða færri vegna þess að gott tóm var til
undirbúnings.
Þegar ég ritaði ágripið, sem nefnt var hér á undan, hafði ég í huga að í
framtíðinni kynni einhver að rita ítarlega skólasögu Aðaldals. Mætti þá
ef til vill hafa einhvern stuðning af minni frumsmíð. Ég tel að þar séu
ábyggilegar heimildir það sem þær ná.
Hitt er annað mál að margt er þar ósagt, sem er þess virði að forðað
sé frá gleymsku. Þó hafði ég fyrirvara: ,,Séu rangfærslur einhversstað-
ar, eða missagnir er opin leið til leiðréttinga síðar meir.“ Mér er ekki
kunnugt um neinar athugasemdir varðandi þann þátt. Verður því að
ætla að ekki sé til að dreifa missögnum, sem máli skipta.
Eg vona að einhver vel fær maður hefjist handa fyrr en síðar og riti
heildarsögu farskólans í Eiðahreppi. Mínir þættir eru aðeins brot — og
fjalla um takmarkaðan tíma af skiljanlegum ástæðum.
Kaflar þeir, sem hér eru skráðir, eru með nokkuð öðru sniði en
ágripið úr skólasögu Aðaldals. Oðrum þræði er gerð tilraun að bregða
upp smá mynd af farskóla í sveit fyrir hálfri öld. Þeir drættir eru færri
og litminni en ég hefði kosið, bæði vegna þess að ég held ekki nógu vel á
pennanum — og svo er rúmið takmarkað í þessu riti.
Saga farskólans er nú öll. Líklegt er að mikill hluti þjóðarinnar hafi
ekki hugmynd um að hann hafi verið til, og enn síður að hann gegndi
mikilvægu hlutverki um áratugi.
Skólakennarar nútímans hafa nógan tíma til að fræða nemendur sína
um þetta fyrirbrigði í þjóðlffi voru, hafí þeir getu til þess og vilja.