Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 113
MÚLAÞING
111
sjálfir, foreldrar þeirra og forráðamenn. Ég fann fljótt að börnin báru
ekki með sér neinn kulda úr heimahúsum, sama hvaðan þau voru. Þá
þóttist ég verða þess vísari að afstaða þeirra til mín væri jákvæð. Ég
held að foreldrar hafi séð eitthvað í gegn um fingur við mig — ef til vill
nemendur líka — þegar mér urðu á mistök, vegna þess að ég var nýliði.
Húsráðandinn á Eyvindará, Guðný Sveinsdóttir, átti góðan þátt í að
vel var af stað farið. Hún þekkti skólabörnin og allar aðstæður. Þau
voru lír næsta nágrenni og hún var þeim kunn að góðu. Hafði hún því
góða aðstöðu til að beita jákvæðum áhrifum á þau, ef til hefði þurft að
taka. Annars þykir mér óvíst að hún hafi nokkurntíma gripið til þess
ráðs. Eftir fjögurra vikna kennslu kom í ljós að byrjunin var ekki örðug.
Fyrstu þrír mánuðirnir voru reynslutími. Á því tímabili hafði ég
kynnst þrem heimilum í sveitinni, forráðamönnum barna þar og öðru
heimilisfólki — og öllum nemendum, sem voru í minni umsjá.
Þá er að geta tveggja heimila til viðbótar, og þeirra er þar koma við
sögu: Hjartarstaða og Breiðavaðs. Til þess að forðast endurtekningar
vísa ég til ummæla minna hér á undan um Eyvindará. Aðbúð öll og
fyrirgreiðsla þar var hin sama. Skólinn var fluttur að Hjartarstöðum um
miðjan nóvember. Sá bær er skammt utan Eiða. Nemendur voru 6.
Haustblíðan var um garð gengin og skammdegi framundan. Voru því
fá tækifæri til útileika. Húsakynni voru svipuð og á Eyvindará.
Húsráðendur voru Ólöf Guðmundsdóttir og Sigurður sonur hennar
Magnússon. Maður Ólafar var þá nýlátinn. Börn þeirra voru sum
kornung, það yngsta 2-3 ára.
Skólinn var fluttur að Breiðavaði eftir áramótin. Sá bær er nálægt
miðri sveit. Þar voru betri húsakynni en á nokkrum stað öðrum í
sveitinni, að Eiðum undanskildum. Húsið var úr timbri með stórum
gluggum, skólastofan rúmgóð og björt. Húsráðendur voru Þórhallur
Jónasson, hreppstjóri, og ráðskona hans Ragnhildur Gísladóttir. Skóla-
börn voru þar 10 að tölu að þessu sinni.
I lok janúar var fyrri umferð farskólans um sveitina lokið og
kennslutíminn hálfnaður.
Grundvöllurinn var lagður og haggaðist hann ekki meðan ég var og
hét sem kennari. Alls kenndi ég á 14 heimilum í Eiðahreppi — 10 ára
tímabil.
Skólaskylda var frá 10-14 ára aldurs. Kennarinn varð að leiðbeina
öllum aldursflokkum í einu, því að hann var aðeins einn, varð að kenna
allar námsgreinar. Má geta nærri að hann var ekki jafnvígur á öllum
sviðum.