Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Side 118
116
MÚLAÞING
segja veit ég ekki vel hvernig leiðin var utan Eiða, en varla hefur hún
verið betri þar.
Húsakynni voru víðast í gömlum stíl, rúmlítil, og upphitun sumstaðar
af skornum skammti. Sími var aðeins á Eiðum og Breiðavaði, rafmagn
hvergi í sveitinni.
Eg get þess arna vegna þess að mig grunar að ,,þægindin“ í þessari
sveit hafi verið svipuð og yfirleitt annarsstaðar í dreifhýli hérlendis á
þriðja tug okkar aldar. — Arið 1935 var rafmagn leitt í húsin á Eiðum.
En bændur urðu að bíða þess enn um sinn.
Verkfræðingarnir, Jakob Gíslason og Sigurður Thoroddsen, höfðu
rannsakað allar aðstæður áður. Töldu þeir vænlegast að virkja Fiski-
lækinn, er fellur úr Eiðavatni í Lagarfljót. Samstaða var um þessa
framkvæmd, og hygg ég að þar hafi hvorki komið við sögu sveitarígur
né landsmál. Eysteinn Jónsson þingmaður Sunnmýlinga var þá fjár-
málaráðherra.
Starfsvettvangur minn var aðeins meðal fólksins á bændabýlunum í
sveitinni, þó kynntist ég einnig þeim sem búsettir voru á Eiðum, meira
og minna. Stephan G. Stephansson kemst svo að orði, meðal annars,
um komu sína að Eiðum sumarið 1917:
,,Eg gekk mig heim til Eiða á glaða-sólskinsdegi —
og gesthlý sveit var Fljótshérað, og hræðralag á vegi.
Og við mér brostu Stigahlíð og svipir úr sögum.
A töf þar munt þú vinna upp vegleysur smærri!
og vilja er dregur hálfa leið, og allar götur færri.
Einn morgun þar renna þér upp ljósaskipti á leiðum.“
Já, „ég gekk mig heim til Eiða“ oft og tíðum. Ég á góðar minningar
þaðan.
Fyrrverandi nemandi á Eiðum, og síðar bóndi í Eiðahreppi, kemst
svo að orði í bréfi til mín nú nýlega:
„Sem Eiðaþinghármaður vildi ég hugsa, þegar skóla- og menntamál
eru skoðuð, að hlutur Eiðaskóla er þar stór. Kennarar voru um skeið
Eiðamenn og reyndust vel, skildu aðstöðu fólksins og heimilanna, og
voru mótaðir af Eiðaskóla, sem um árabil var sameiginlegt heimili
sveitarinnar. Hér er mér efst í huga sr. Ásmundur, Guðgeir og margir
fleiri ágætir kennarar, sem komu í Eiða og fundu hjá sér hvöt til að
blanda geði við sveitungana. Slík viðkynning og áhrif á sveitina og lífið
verða aldrei þökkuð sem vert er.“ Ég get gert þessi orð að mínum.