Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 142
140
MÚLAÞING
Þessi annmarki kemur fram í þingræðu hjá Guttormi Vigfússyni,
öðrum þingmanni Sunnmýlinga, árið 1903, þar sem hann getur félags-
stofnunar á Héraði til að koma á bátsferðum á Lagarfljóti. Hann segir:
,,En fyrirtækið komst þá ekki til framkvæmda, vegna þess að við
nánari íhugun þóttust menn sjá að fyrirtækið mundi ekki geta borið sig
sökum erfiðleika við kolaflutninga yfir hina erfiðu fjallvegi.“
I sjálfsævisögu séra Magnúsar Blöndals (útg. Rvík 1980) er nokkuð sagt
frá aðdraganda vegagerðar yfir Fagradal milli Reyðarfjarðar og Héraðs.
Séra Magnús var fæddur 1861 á Efri-Ey í Meðallandi, dáinn 1956 í
Reykjavík. Hann var prestur í Þingmúla og bjó þar 1891-1892, þá veitt
Vallanes, fluttist þangað og bjó þar til ársins 1925, prestur í Vallanes-,
Þingmúla- og Hallormsstaðasókn.
Veturinn sem séra Magnús var í Þingmúla segir hann að augu sín
liafi opnast fyrir því að aðdráttarleiðir til Héraðsins væru óhæfar og
síðan:
,,Þar var um þrjá heiðarvegi að ræða. Syðst var Þórdalsheiði, stytzt
og bezt þeirra allra. En hún var að eins fyrir Skriðdalinn og lítils háttar
fyrir Skóga, en lítið notuð þaðan. Hinar voru Fjarðarheiði og Eskifjarð-
arheiði, livor annarri erfiðari og lengri. A Reykjavíkurárum mínum
hafði eg kynnzt flutningi á hjólum, og slík flutningatæki skildist mér, að
væru hreint tilveruskilyrði fyrir Héraðið. Eg hafði haldið uppi eftir-
grennslunum um það, hvort hvergi mundi vera til lágur fjallvegur
nálægt Miðhéraðinu, er akvegarhæfur væri. Hafði mér þá verið sagt frá
Fagradal, er lægi milli Reyðarfjarðar og Miðhéraðs.“
Þennan vetur fer séra Magnús með konu sinni upp í Valþjófsstað í
heimboð til séra Sigurðar Gunnarssonar, „og reið eg þá Lagarfljót á ísi í
fyrsta sinn.“
„Þetta var hin bezta skemmtiferð,“ segir séra Magnús, „að ríða á
klökum og ísi í sólblíðu útmánaðanna, og eftir því voru hinar höfðing-
legu viðtökur á Valþjófsstað. Dvöldum við þar tvær gestanæturnar.
Dvalardaginn bar margt á góma milli okkar sr. Sigurðar, einkum um
ástand og þurftarmál Héraðsins, þar á meðal hina erfiðu aðdrætti.
Sagði eg þá sr. Sigurði frá Fagradal og hugmynd minni um akvegargjörð
yfir hann. Hvorugur okkar hafði séð dalinn, sá einn munur okkar, að
hann hafði að vísu heyrt hann nefndan eins og eg, en aldrei dottið í hug
að setja hann í samband við vegargerð, sem eg þar á móti hafði strax
gert, og því þaulspurt um dalinn. I sambandi við þessa vegarhugmynd
mína, sagði sr. Sigurður mér þá frá því, að fyrir þeim í Norðursýslunni