Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Blaðsíða 157
MÚLAÞING
155
Árlegur ferðatími á að verða í aðalatriðum milli ísa frá vori til hausts
og hagað þannig í stórum dráttum: 1 maímánuði eftir þörfum, í júní
sunnudaga og aðrar ferðir eftir þörfum, í júlí og ágúst fastar ferðir, 14
alls, í september eins og í júní, en ekki teknar ákvarðanir um ferðir í
október.
Tryggvi er endurráðinn bátstjóri.
Enn er samþykkt að greiða 6% í vexti og leggja í varasjóð framlag úr
landsjóði kr. 500 og sýslusjóðum kr. 300. Formaður skal fá 50 krónur í
árslaun og deildarstjórar eru áminntir um innheimtu farmgjalda fyrir
15. október.
Áður en lengra er haldið þykir viðeigandi að birta hér frásögn af fyrsta
hrakningnum sem báturinn lenti í. Sigmar G. Þormar skrifaði grein í
Sunnudagsblað Tímans árið 1967 (bls. 534) um þau stóru framfaraskref
sem stigin voru í samgöngumálum á Héraði árið 1905 og næstu ár fyrir
og eftir. Aðalefni greinarinnar er frásögn af ,,brúarvígsluveðrinu“. Hún
er á þessa leið:
Hinn nýi bátur, Lagarfljótsormurinn, hafði komið frá Brekku, hlaðinn
farþegum, og auk var bætt í hann fólki í Vallanesi, þar eð veður var
kyrrt um morguninn. Þegar kom fram á kvöldið, vildi bátstjórinn leggja
af stað, því að honum var umhugað að komast til baka í björtu. Fólkið
hafði dreifzt í allar áttir, svo að töluverðan tíma tók að ná því saman.
Tókst það samt og báturinn lagði af stað í bezta veðri. Bátstjórinn var
Tryggvi Ólafsson, faðir Ólafs Tryggvasonar læknis, og hafði hann einn
mann sér til aðstoðar.
Báturinn hvarf fljótlega úr augsýn, og datt engum nein hætta í hug.
Fór nú fólk yfirleitt að tygja sig til ferðar og þar á meðal Fljótsdælingar
þeir sem ríðandi komu. En þar sem við vorum austan fljóts en hestar
okkar vestan, héldum við yfir brúna, og var þar óslitin röð af fólki. Rétt
þegar við nálguðumst brúna, gerði snarpa vindhviðu, og breyttist
veðurblíðan snögglega í suðvestanrok. Vildi svo til, að sá sem gekk á
undan mér, missti hattinn, og fauk hann langt út á fljót. Maðurinn rak
upp óp mikið, og við það leit sá næsti um öxl, og sagan endurtók sig.
Enn leit sá þriðji um öxl, og þarna flutu þrír hattar, sem sigldu með
glæsibrag út fljótið. Hvort þá rak seinna á fjörur Héraðsbúa, veit ég
ekki.
Við bjuggum okkur nú til ferðar, svo fljótt sem við gátum, því að við,
sem ætluðum á hestum, vorum farnir að óttast um vélbátinn. Við vorum