Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 171
MULAÞING
169
ráðsmaður á Langhúsum. Einstöku sinnum skaut ókunni maðurinn inn
í samræðurnar bráðsmellnum athugasemdum. Það upplýstist að konan
sem með okkur var, liafði poka meðferðis, hvar í var köttur sem talinn
var geta átt sinn þátt í hversu bögsulega ferðin gekk, að minnsta kosti
ef hann væri svartur. Konan lét ekkert uppi um lit kattarins.
Þegar komið var á móts við As byrjaði vélin að hiksta og hósta. Þetta
reyndist ekki vera skítur í spíssnum, og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir
bátstjórans, sem jafnframt var vélstjóri, tókst ekki að ráða bót á þessu
heilsuleysi rokksins, og var nú ekki annað sýnna en við yrðum
strandaglópar þarna úti á miðju Lagarfljóti.
Þegar á þessum ,,læknisaðgerðum“ hafði staðið alllanga stund og
vélstjórinn orðinn býsna hávær og nokkuð stórorður í garð vélarinnar og
reyndar bátsútgerðarinnar í heild, þá bregður svo við að vélin rýkur allt
í einu í gang, og glaðnaði þá heldur betur yfir mannskapnum. Skipst var
á gamanyrðum, og lét nú ókunni maðurinn ekki sinn hlut eftir liggja í
því sambandi. Enn kom kötturinn inn í málið og hugsanlegur litur hans.
Fyrir tilmæli okkar opnaði nú konan pokann og dró upp úr honum —
kolsvartan kött. „Átti eg ekki á von,“ man eg eftir að ókunni maðurinn
sagði.
Meðan á þessu kattarspjalli stóð tók vélin aftur að hósta og hiksta. Þá
vildi bátstjórinn ekki hætta á neitt, heldur stefndi fleyi sínu skemmstu
leið í land, í fjöruna fyrir neðan Skeggjastaði. Þar skildust leiðir, þar
sem fá þurfti sérfróðan mann til að líta á vélina, en það var ekki hægt
fyrr en næsta dag.
Þann dag síðla bar gest að garði á Valþjófsstað; var þar kominn
maðurinn ókunni frá bátsferðinni daginn áður. Þegar maður þessi
kynnti sig, reyndist þar vera kominn Jón Magnússon skáld, sem orðið
hafði þjóðkunnur árið áður þegar ljóðabók hans Bláskógar kom út. Við
Jón kynntumst síðar og minntist hann þá oft á bátsferð þá sem hér
hefur verið sagt frá, og gleymdi þá ekki kettinum svarta.
Síðari ferðin sem nefnd var í upphafi þessa spjalls, var hvorki jafn
viðburðarík né váleg, þótt hún sýndi að margt gat skeð á „sæ“ í
sambandi við siglingar á Lagarfljóti á sínum tíma. Það mun hafa verið
þetta sama sumar, þó nokkuð fyrr, að sækja þurfti timbur í Egilsstaði.
Sem fyrr sagði var vélbáturinn ekki hentugur til þeirra hluta og fékk eg
því í það sinn lánaðan róðrarbát, sem þeir áttu Geitagerðismenn, til
flutninganna. Til þess að nota ferð bátsins fylltu þeir hann af ull, og eg
bjó vel um mig ofan á ullarböllunum.