Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 202
200
MULAÞING
báðar gerðar með sama lagi og brúin á Eyvindará. Hafa þær nú staðið
um 30 ár og reynst vel.
Eg ætlaði að láta flytja Skjálfandaíljótsbrúna upp til Norðurlands, en
hina til Austurlands. Það var ísaárið mikla 1882. En þrátt fyrir allar
íshindranir komust þó báðar brýrnar á Húsavík og Seyðisfjörð og yfir
árnar næsta sumar. Eg hafði fengið Baldt timburmeistara sem var
kunnugur hér til þess að sjá um smíðið.
Síðan lét eg byggja með sama lagi brú á Glerá og Þverá í Eyjafirði og
ýmsar fleiri brýr.
/ erindum Gránufélagsins
Eftir samningi við Gránufélagið átti eg að dveljast í Kaupmannahöfn á
vetrum, annast um sölu á íslenskum varningi og kaup á útlendri vöru.
En á vorin átti eg að fara til Islands og ferðast milli verslunarstaða
félagsins um sumarið til eftirlits.
Eg ætla að segja hér nokkurn þátt úr einni af þeim sumarferðum.
Gerðist hann sumarið 1878. Gránufélagið átti þá verslanir á Sauðár-
króki, Siglufirði, Akureyri, Raufarhöfn og Seyðisfirði og hafði auk þess
í förum tvö lausakaupaskip. Gekk annað þeirra á Hornafjörð, Djúpavog
og Breiðdal, en hitt á Skagafjörð og Húnaflóa.
Snemma í júlímánuði það ár, á miðvikudag, lagði eg af stað frá
Akureyri í ferð austur um land. Fór eg þá allhart yfir. Fyrsta daginn frá
Akureyri að Reykjahlíð, annan daginn að Möðrudal á Fjöllum, þriðja
daginn austur á Hérað og um morguninn fjórða daginn, laugardag, var
eg kominn yfir Lagarfljót, yfir í Þórsnes. Þar átti þann dag að vera
sameiginlegur þingmálafundur og Gránufélagsfundur fyrir báðar Múla-
sýslur en eg var þá þingmaður Sunnmýlinga.
Fundurinn var vel sóttur, á annað hundrað manns, og margt þar rætt.
I fundarlok riðu margir fundarmenn saman heim að Ketilsstöðum. Einn
þeirra var Jón Johnsen sýslumaður á Eskifirði. Þurfti hann að vera
kominn mánudaginn næsta suður til Fáskrúðsfjarðar, til þess að halda
þar uppboð á franskri fiskiskútu sem þar hafði strandað. Talaðist nú
svo til að eg yrði honum samferða þangað suður, því að eg var þá á leið
suður í Hornafjörð að vitja um lausakaupaskip Gránufélagsins þar. Á
því skipi var Sigurður Sæmundssen kaupstjóri.
Við sýslumaður fórum nú af stað um háttatíma frá Ketilsstöðum og
komum um fótaferðartíma á Eskifjörð. Sváfum við þar fyrri hluta
dagsins, en lögðum af stað síðari hluta dags með litlum bát áleiðis til