Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1981, Síða 205
MÚLAÞING
203
þeir mundu vera að ráðgast um málið. Þykir mér ekki ólíklegt að þeim
hafi, er þeir fóru að átta sig, þótt smán að því að skilja mig þarna einan
eftir í bersýnilegri lífshættu og hitt þó verra að missa kaupið í sjóinn.
Hvað sem þeim kann að hafa talast til, þá fóru þeir aftur á flot og reru
út að skipinu. Hafði sjór mjög aukist í því á meðan. Tóku þeir þegar að
róa skipinu yfir fjörðinn og dæla og ausa af meira kappi en fyrr, enda
var nú aftur komið logn. Er það skemmst af að segja að þeir komu
skipinu yfir að eyrinni, en þá var svo mikill sjór kominn í það, að það lá
miklu dýpra í sjónum en þótt fullfermt hefði verið af vörum.
Nú borgaði eg mönnunum kaup sitt og lét flesta fara, en tíu hélt eg
eftir og dældu þeir skipið um nóttina svo sjór yxi ekki í því með flóðinu
og var nú hægt að koma því hærra upp með næsta háflóði. Lét eg þá nú
fara líka og beið einn fjörunnar til þess að geta skoðað skipið sem best.
Þegar eg fór að svipast um eftir efnivið til aðgerðar plönkum þeim á
brjósti skipsins, sem brotnir voru, kom það í ljós að ekkert hæfilegt efni
var að fá þar í nágrenninu. En á þilfarinu á skútunni sjálfri voru
fiskikassar úr eikarplönkum festir með járnboltum við þilfarið. Gat eg
losað um boltana og náði þarna plönkum er eg setti í skipið í stað þeirra
sem brotnir voru.
Er eg hafði lokið þessari aðgerð og þéttað allt sem best, hugði eg að
nú mundi skipið orðið fullþétt, en reyndin varð sú að með næsta flóði
lak það litlu minna en áður. Hlaut skipið því að vera brotið einhvers
staðar niðri í sjó. Utvegaði eg nú 20 menn til að draga upp skipið með
næsta flóði, svo hátt að sjá mætti hvaðan lekinn mundi stafa. Svo vel
stóð á, að þá var hástraumur og komst skipið því talsvert upp á land.
Með fjörunni kom það í ljós að neðri hluti stefnisins var allur sundur
táinn, auðséð að skipið mundi fyrst hafa rekið stefnið á skerið, en
hrokkið svo til og brjóstið brotnað er það nam við skerið.
Nú var hvorki í skipinu né í nágrenninu nokkurt nýtilegt efni í stefni.
Hafði eg því ekki önnur ráð en að höggva neðri hluta stefnisins fast inn
að kjalsíðum, og nota síðan áðurnefnda fiskkassa-planka, negla þá
hvern utan yfir annan framan á skipsstefnið með tjörguðum striga milli
laganna, og hætti eigi við fyrr en stefnið var orðið fullbreitt.
Meðan á þessari viðgerð stóð, sá eg að lekinn minnkaði með hverju
flóði, og þóttist af því mega ráða að eigi væru fleiri göt á skipinu.
Um miðja vikuna frétti eg að „Grána“ væri komin til Seyðisfjarðar.
Fékk eg þá mann á Fáskrúðsfirði til að bregða við og fara með bréf til
Gránu-Petersens, þar sem eg bað hann að koma suður á Fáskrúðsfjörð
og búa út segl og reiða á skonnortunni. Petersen varð við þessum