Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1996, Blaðsíða 7
MÚLAÞING 30 ÁRA
í formála að fyrsta hefti Múlaþings árið 1966 varar ritstjórinn, Ármann Halldórsson, lesendur
við því að búast við ritinu árlega þótt lagt sé upp með þá stefnu. Á þessum 30 árum eru heftin
orðin 23 (ef þetta er með talið) svo sjö ár hafa fallið úr. Sá sem flettir eldri árgöngum verður
án efa starsýnt á þá óhemju af fróðleik úr Múlasýslum sem þar er saman kominn og óvíst að
hefði varðveist að öðrum kosti. Elja Ármanns við að halda ritinu gangandi er undraverð og
sama má segja um Sigurð Oskar Pálsson sem hlaupið hefur í skarðið þegar Ármann hefur orðið
að víkja úr ritstjórastóli vegna annarra verka.
Ármann Halldórsson kvaddi lesendur Múlaþings í síðasta hefti en afskiptum hans af ritinu
er ekki lokið þar með. Hann bjó til prentunar greinina eftir Andrés Björnsson á Nesi, sem birt
er í þessu hefti, og í fórum ritstjómar er grein eftir hann um Álftavíkur sem væntanleg er í næsta
hefti. Og hann lumar á fleiru eins og lesendur fá væntanlega að kynnast á komandi árum.
Við sem nú tökum við ritstjóminni ætlum okkur ekki að umbylta ritinu þótt við hyggjum á
talsverðar breytingar. Efni sem við sækjumst eftir er þjóðlegur fróðleikur, eins og birtur hefur
verið í ritinu til þessa, þjóðfræði og efni tengt þjóðtrú, efni um bókmenntir, myndlist og tónlist,
fornleifafræði, ýmislegt tengt náttúru, t.d. náttúrusaga, gönguleiðir (gamlar og nýjar), ferða-
lýsingar, umfjöllun um einstök býli (með ábúendatölum e.t.v.), úttektir á ákveðnum
landsvæðum og byggðarlögum (t.d. hvað er merkilegt að finna á hverjum stað, svo sem söfn,
minjar, athyglisverð náttúrufyrirbæri o.s.frv.). Þá er ætlunin að hafa a.m.k. eina grein í hverju
hefti sem tengist ættfræði. Rétt er að vekja athygli á að ritsmíðar þurfa ekki að vera langar til
að eiga erindi í ritið. Hitt er meira áhyggjuefni þegar greinar verða svo langar að þær taka yfir
meira en 20 til 30 blaðsíður. I einhverjum tilvikum hentar að skipta greinum milli hefta en það
er þó ekki alltaf. Best væri fyrir þá sem eiga svo umfangsmikið efni í fórum sínum að fá það
gefið út sérstaklega sem bók eða bækling.
I fyrsta hefti Múlaþings kvartar ritstjórinn yfir því að illa gangi að fá efni frá byggðarlögum
sunnan Fáskrúðsfjarðar. Þetta á enn við og sama gildir einnig um nyrsta hlutann, Vopnafjörð
og Skeggjastaðahrepp. Er vonandi að úr rætist.
Hvað efni varðar ættu lesendur þessa rits varla að sjá rniklar breytingar frá því sem verið
hefur. Þarna er þó umfangsmikil grein eftir Ágúst Guðntundsson um fjallgarðinn milli Héraðs
og Vopnafjarðar þar sem m.a. er sett fram byltingarkennd hugmynd um svonefnd berghlaup.
Hvað útlitið varðar höfum við gert nokkrar breytingar. Aðalefni ritsins er í tveimur dálkum og
síðurnar hafa verið breikkaðar um 1 cm. Þá hefur myndefni verið aukið til rnuna.
Sem sagt, gamalt vín á nýjum belgjum og svo verður vonandi að stórum hluta áfram.
Finnur N. Karlsson
Skarphéðinn G. Þórisson
5