Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 173
og umfjöllum um nútímabiblíurannsóknir hafi birst í fyrsta riti félagsins í
útleggingu Jóns Olafsson Svefneyings á fyrstu köflum Jesajaritsins, og áfram
hafi verið haldið í næstu heftum. Tímamótum olli aflagning biskupsstólanna
á Hólum og í Skálholti og einnig flutningur skólanna. Upplýsingartíminn
hafði í för með sér miklar breytingar á kirkjulífi: nýir straumar í menntun
og fræðslu, í guðfræði og kirkjulífi bárust til landsins. Áhrifanna af upplýs-
ingarstefnunni fór að gæta hér á landi tiltölulega seint að mati höfundar,
„eða þegar blómaskeiði hennar var að Ijúka á meginlandi Evrópu“ (211).
Afleiðingarnar túlkar höfundar þannig að „hin eiginlega upplýsingarstefna
hafi aldrei náð til fulls hingað til lands“ (211).
Gagnrýnin á upplýsingarstefnuna barst snemma til landsins, eða um það
leyti sem hún var að festa sig í sessi hér. Viðbrögðin komu úr átt íhaldssamra
sjónarmiða í trú og guðfræði, einn helsta fúlltrúa þeirra sér höfundur í séra
Jóni Jónssyni í Möðrufelli í Eyjafirði sem beitti sér fyrir umfangsmikilli
smáritaútgáfu í anda píetismans. En frjálslyndari stefna í guðfræði og
kirkjulífi barst hingað m.a. með Magnúsi Stephensen, einnig litlu síðar með
Fjölnismönnum, m.a. séra Tómasi Sæmundssyni á Breiðabólstað og þeirri
guðfræði sem mótast í rómantísku stefnunni og eignuð er þýska guðfræð-
ingnum Friedrich Schleiermacher. „Tómas lagði áherslu á að tilfinningarnar
séu mikilvægari en hugsunin...“ segir höfundur (213) og má það til sanns
vegar færa. Með guðfræði Schleiermachers bárust hingað til lands sterkir
straumar frjálslyndrar guðfræði. Ein helsta bókin um það efni á íslensku
var bók danska biskupsins Jakobs Peters Mynsters, Mynstershugleiðingar,
í þýðingu Fjölnismanna. Sú bók átti eftir að njóta fádæma vinsælda hér á
landi enda áhugaverð einnig fyrir nútímalesendur, framsetningin afar góð
og þýðingin frábær. Þessum breytingatíma gerir höfundur góð skil.
Guðfræði Schleiermachers hafði einnig áhrif á kirkjuskilninginn, hann
skilgreinir hugtakið þjóðkirkja og setur það á dagskrá skömmu fyrir miðja
nítjándu öld. Guðfræði hans er nefnd miðlunarguðfræði, þar er gengið út
frá veruleika mannsins en ekki út frá játningum kirkjunnar. Enda segir
höfundur: „Miðlunarguðfræðin þýska er hér áberandi. Hún vildi fara bil
beggja, halda í það gamla en jafnframt vera móttækileg fyrir nýjungum.
Þessi stefna var kirkjuleg, þ.e. trú kirkjulegm játningum og helstu kenn-
ingum kirkjunnar. En jafnframt leggur Pétur [Pétursson biskup] áherslu á
að kirkjan sé í sífelldri þróun og verði að taka tillit til sögulegra biblíurann-
sókna og nútíma biblíugagnrýni“ (217).
171
L