Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 80
bókar á íslensku varð tilefni þessarar greinar sem er á fræðasviði áhrifasögu
Gamla testamentisins.5
I greininni er ætlunin að veita nokkra innsýn í ótrúlegt lífshlaup Elie
Wiesels og ræða jafnframt athyglisverða trúarlega drætti í nokkrum hinna
fjölmörgu bóka hans. Aðalspurningin verður sú hver sé hlutur Biblíunnar
(hinna hebresku ritninga) í bókum Wiesels eða nánar til tekið: Til hvaða
rita Biblíunnar sækir hann einkum og hvernig notar hann þau? Það segir sig
sjálft að ekki verður unnt að taka allar bækur Wiesels til umfjöllunar. Þess í
stað verður kastljósinu einkum beint að hann elstu og kunnustu bók, Nótt,
og vitnað til ýmissa annarra bóka til samanburðar, ekki síst minningabóka
hans, svo og hins athyglisverða rits hans The Trial ofGod,6 sem er í formi
leikrits og fjallar um réttarhöld yfir Guði.
Æviágrip
Elie Wiesel fæddist í litlu þorpi Sighet í Karpatafjöllum í Rúmeníu árið 1928,
en þorpið hefur ýmist tilheyrt Ungverjalandi eða Rúmeníu. Þorpið var dæmi-
gert „Shetl“7 eins og gyðingaþorpin í Austur-Evrópu voru kölluð á jiddísku.
Þangað höfðu fyrstu Gyðingarnir komið sem flóttamenn um kringum 1640
og þar bjuggu um sextán þúsund Gyðingar fyrir síðari heimsstyrjöld.
Shlomo, faðir Elie, rak verslun í bænum og lét málefni Gyðinga mjög
til sín taka, var sannkölluð hjálparhella hinna nauðstöddu. Sara, móðir Elie,
var dóttir Dodye Feigs, þekkts rabbía af grein Hasídím-Gyðinga.8 Wiesel
hefur sagt að faðir hans hafi staðið fyrir skynsemina en móðir hans fyrir
trúna í uppeldi hans. Elie átti tvær eldri systur, Hildu og Beu, auk litlu
systurinnar Sippóru. Tvær eldri systurnar lifðu af helförina og hittu bróður
sinn á frönsku munaðarleysingjahæli eftir stríðið.
Hér er ekki rými til að rekja lífshlaup Elie Wiesels í smáatriðum, en
svo fór að Sighet, sem þá var komin undir stjórn ungverskra yfirvalda,
hlaut sama hlutskipti og flest gyðingaþorp í Austur-Evrópu. Ibúarnir voru
fluttir til Auschwitz um miðjan maí 1944. Elie komst í gegnum „valið“ við
komuna til búðanna ásamt föður sínum, þar sem þeim var bent á það af
5 Haraldur Hreinsson hefur nýverið skrifað snjalla grein um áhrifasöguna. Sjá Haraldur Hreinsson
2012: Orðræða um áhrifasögu, s. 181-204.
6 Wiesel, Elie 1995, Trial of God.
7 í kvikmyndinni kunnu Fiðlarinn á þakinu, Fiddler on the Roof fáum við góða innsýn í heim
“Shetl”-þorpanna.
8 Um Hasídím-Gyðinga má lesa í grein minni “Hinn útvaldi: Gyðingleg kvikmynd skoðuð af
sjónarhóli 1. sálms Saltarans.” Sjá Gunnlaugur A. Jónsson 2001, s. 217-228.
78