Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 163
í því sambandi líta til skrifa Páls postula í Korintubréfinu. Sú málamiðlun
felst í að sætta sig við hjónabandið sem nauðsynlega vörn gegn fysnum
og girndum en standa jafnframt vörð um róttæka, kristna hugsjón um
kynferðislegt taumhald og skírlífi - í eftirfylgdinni við Jesú. Lítum að lokum
á einmitt eina slíka málamiðlun - með öfugum formerkjum þó!
Hugsjónir siðbótarmanna um ókvæni og skírlífi
Það er kunnara en frá þurfi að segja að þegar kemur fram á 16. öld hefja
siðbótarfrömuðir á borð við Lúther og Kalvín gagnrýni á fjöldamargt í atferli
hinnar rómversk-kaþólsku kirkju. Þá gagnrýni má ekki síst tengja áherslum
hennar á ókvæni og skírlífi. Ekki verða dregnar í efa þær miklu breytingar
sem urðu innan kirkjunnar við það að siðbótarmenn hófu að andmæla
skoðunum kaþólsku kirkjunnar á ókvæni presta og skírlífi innan klaustra.
Það þýðir þó ekki nauðsynlega að hinar djúpstæðu, kristnu hugsjónir um
skírlífi í eftirfylgdinni við Krist hverfi með öllu. Því má til dæmis halda fram
að Lúther hafi fyrst og fremst beint gagnrýni sinni að misnotkun kaþólsku
kirkjunnar á þessum hugsjónum og hvernig þær hugsjónir voru stofnana-
væddar, t.d. innan veggja klaustranna.36 Þar með er ekki sagt að hann hafi
ráðist að rótum hugsjónanna sjálfra og talið þær rangar í eðli sínu.37 Fremur
má halda því fram að hinir mörgu og mismunandi textar eftir Lúther um
efnið sýni að Lúther viðurkenni, á stundum, hófsama tileinkun á skírlífi og
einlífi og þar með möguleikann á því að í vissum tilvikum geti hið nýja líf
í Kristi tekið það form að vera utan hjónabands og kynlífs.38 Þannig má
segja að Lúther sé í grundvallaratriðum sammála afstöðu Páls postula eins
og hún birtist í Fyrra Korintubréfi um að hver og einn skuli lifa því lífi
sem Drottinn hafi úthlutað honum og að mikilvægast sé að vera ekki þræll
197-203; sjá einnig Elizabeth Clark ritstj., St. Augustine on Marriage and Sexuality, Washington,
D.C.;The Catholic University of America Press, bls. 32—41.
36 Merry E. Wiesner-Hanks, Christianity and Sexuality in the Early Modern World. Regulating Desire,
Reforming Practice, New York: Routledge, 2000, bls. 73-78; John Witte Jr., From Sacrament to
Contract. Marriage, Religion, and Law in the Western Tradition, Louisville: Westminster John
Knox, 1997, bls. 42-73; Mark Jordan, The Ethics ofSex, bls. 57-61.
37 Mikilvægt er að benda á að Lúther fjallar marg oft um þetta efni og gerir það á mismunandi
hátt og því er erfitt að fá fram eina samræmda mynd. Það er ekki vandamál í þessu samhengi
þar sem markmiðið er einungis að benda á að hinar fornu, kristnu siðferðilegu hugsjónir um
líf í eftirfylgd við Krist utan kynlífs og hjónabands lifa áfram hjá kristnum guðfræðingum langt
fram á okkar tíma, og Lúther sjálfur er þar ekki undan skilinn.
38 Mark Jordan, The Ethics ofSex, bls. 57-59. Jordan tekur dæmi um bréf Lúthers til nunna frá
6. ágúst 1524 þar sem hann talar um að það sé mjög sjaldgæf gáfa að geta lifað án kynlífs - en
hann útiloki þó alls ekki þá gáfu.
161
L