Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2012, Blaðsíða 40
hans og sýnir fram á það hvernig Hallgrímur var vel að sér í stefnum
og straumum samtíma síns og orti hér í stíl við það sem skáld gerðu í
nágrannalöndunum um þetta leyti.6
Úrslitasaga allrar sögu
Píslarsaga Jesú er til í fjórum útgáfum, einni í hverju guðspjalli. Snemma var
farið að skeyta saman hinum fjórum píslarsögum í einn, samfelldan texta.
Þannig var orðum Jesú, sem er misjafnlega greint frá í guðspjöllunum, raðað
upp svo að úr urðu sjö orð. Þrjú þeirra eru tekin úr Lúkasarguðspjalli, 1.,
3. og 7. orðið, þrjú úr Jóhannesarguðspjalli, 2. 5. og 6. orðið. Eitt er tekið
úr Matteusar- og Markúsarguðspjalli, 4. orðið.7 Hallgrímur fylgir samantekt
píslarsögunnar sem samstarfsmaður Lúthers, Jóhannes Bugenhagen, hafði
tekið saman og snemma var þýdd á íslensku og prentuð í handbókum fyrir
presta.8
I Passíusálmunum vill Hallgrímur segja þessa sögu. Um leið vill hann
íhuga söguna í þeim tilgangi að læra af henni hverju eigi að trúa, hvernig
eigi að breyta og hvers menn megi vona. Að hans mati er Píslarsagan engin
venjuleg saga heldur er hún sagan af úrslitaatburði allrar sögu, þegar Guð
sjálfur háði lokabaráttuna um manninn og vann þá baráttu mannkyni til
heilla: „Dauðinn tapaði en Drottinn vann, dýrlegan sigur gaf mér þann.“
(3.8) Þegar hann íhugar þessa sögu er hann engan veginn hlutlaus áhorfandi
heldur sér hann atburði Píslarsögunnar eins og þeir eigi sér stað samtímis
í fortíð og nútíð. Atburðir guðspjallanna eru vissulega atburðir liðinnar
sögu en þeir eru meira en liðin saga. Þeir eru eilífir atburðir og gildi þeirra
er ekki einvörðungu hið sögulega gildi heldur hafa þeir eilíft gildi sem
raunhæfist við það að þeir fá að gerast í lífi okkar, næstum því inni í okkur.
Þetta sjónarmið endurómar yfirlýsingu séra Einars Sigurðssonar í Eydölum
í jólakvæði hans „Nóttin var sú ágæt ein“ þar sem hann segir: „Vil ég mitt
6 Margrét Eggertsdóttir 2005, Barokkmeistarinn. List og lardómur i verkum Hallgríms Péturssonar.
Reykjavík.
7 Sjö orð Krists á krossinum eru: 1. Faðir fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra, (Lúk
23.34) 2. Kona, sjá þar er sonur þinn. Sjá þar er móðir þín. (Jóh 19.26-27) 3. Sannlega segi ég
þér: „f dag skalt þú vera með mér í Paradís." (Lúk 23.43) 4. Guð minn, Guð minn, hví hefur þú
yfirgefið mig? (Matt 27.46; Mark 15.34) 5. Mig þyrstir. (Jóh 19.28) 6. Það er fullkomnað. Jóh
19.30) 7. Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn. (Lúk 23.46)
8 Sjá Einar Sigurbjörnsson 1994, „Píslarsaga og Passíusálmar.“ Ritröð Guðfrœðistofnunar— Studia
theologica islandica 9 1994 s. 107-128.
38
J