Tímarit Máls og menningar - 01.06.2009, Blaðsíða 18
S t e i n a r B r a g i
18 TMM 2009 · 2
sem virtist umvefja kólfinn, var þétt og föst fyrir næst honum en gisnaði
og mýktist út á við, og honum þótti minna á einhvers konar öfugsnúið
leg, en þessu síðastnefnda hélt hann fyrir sjálfan sig.
Á endanum var reipisbúturinn sem lá úr klukkunni og niður í kólfinn
– á hátt sem var fjarri því glæpsamlegur – fjarlægður úr kirkjunni ásamt
öllum bútum af sama reipi, þeir voru kirfilega brenndir og lögð sérstök
áhersla á vígslu nýs reipis með fjölmörgum bænum og væli prestsins. Á
tímabili barst jafnvel í tal að skipta alveg um klukku – eins og hún hefði
gert eitthvað! – en auðvitað voru ekki til peningar fyrir slíku.
Þannig endaði rannsóknin og enginn sökudólgur fannst eða þótti
líklegur. Rétt eins og með fyrra barnið gat málið þó af sér heilmikið
blaður, sem eflaust tók sinn ógeðfelldasta sprett þegar kona – í áheyrn
eiginmanns síns og vina hans – spurði hins augljósa hvað viðvék reipinu
og hvernig barnið dinglaði neðan á því: hún spurði um naflastreng en
þetta var ekki tekið sérstaklega upp eða haft frekar á orði.
En líklega var einhvers konar „meyfæðing“ fjarri því kjánalegasta til-
gátan af þeim sem hrærðu hugi fólksins í bænum – svo virtist sem börn-
in fæddust hreinlega innan í klukkunni því aldrei komu fram nein
ummerki um þau í bænum né annars staðar á eyjunni.
Eftir átök um hvort ætti að brenna það, jarða eða yfirhöfuð að hleypa
því aftur nálægt kirkju, var seinna barnið jarðað í kyrrþey á afskekktasta
odda eyjunnar, við stuttaralega athöfn prestsins.
– – –
Upp frá þessu breyttist hitt og þetta smálegt í lífi bæjarins. Lögreglan
hóf að ganga með byssu, í og með til að sýna fólki að ekkert væri að ótt-
ast, og presturinn tók þá ákvörðun að hringja ekki klukkunni góðu til
messu – að minnsta kosti ekki fyrr en minningin um hina drungalegu
atburði tæki að dofna í höfðum bæjarbúa. Í fjölmennustu, innblásnustu
stólræðu sinni bað hann fólk að halda stillingu, tiltók skaðsemi ímynd-
unaraflsins og hvernig hið góða hefði af einhverjum ástæðum alltaf átt
erfiðara með að gera sig þar heimakomið, en hið illa, sem hefði lag á að
hæna til sín hvers kyns óstýrilátar hugsanir – reiði, sorg – og fyrr en
varði væri allt í heitasta pytti syndsemi og viðbjóðs. Þannig var það.
En hver var ógnin? Hvað hræddust íbúar bæjarins, og hvað var þetta
illa sem um var rætt, eða hið góða, ef út í það var farið? – Börn höfðu
dáið, enginn sökudólgur var fundinn, en hvers vegna að óttast, gera allt
svona íþyngjandi og drungalegt – hvers vegna að galdra svona fram í sér
myrkrið? Héldu bæjarbúar kannski að röðin kæmi að þeim sjálfum
næst? Hélt lífið ekki áfram?
TMM_2_2009.indd 18 5/26/09 10:53:22 AM