Tímarit Máls og menningar - 01.09.2011, Blaðsíða 24
24 TMM 2011 · 3
Guðni Elísson
„Og syngur enginn fugl“
Hernaðurinn gegn Rachel Carson
… meinlaust eitrið féll eins og skæðadrífa yfir bjöllur jafnt og menn, yfir fólk
á leið í búð eða til vinnu og börn á leið úr skóla. Húsmæður sópuðu þessu
fíngerða hagli af sólpöllum og gangstígum, sem þær sögðu að væri „eins og
snjór“. Í skýrslu, sem Fuglavinafélag Detroit birti síðar, mátti lesa: „Þessi litlu,
hvítu aldrin-leir-högl söfnuðust í milljónatali fyrir í þakrennum, í rifum milli
þakhellna og í barkarsprungum á trjám. Þegar snjóaði og rigndi, breyttist hver
einasti pollur í banasveig.“1
Því hefur oft verið haldið fram að umhverfisverndarhreyfingar nútím-
ans megi rekja til útgáfu metsölubókarinnar Silent Spring (1962) eftir
bandaríska líffræðinginn Rachel Louise Carson (1907–1964). Því verður
líka seint neitað að bók hennar er eitt merkasta rit á þessu sviði frá
liðinni öld. Í bókinni varar Carson við óhóflegri og eftirlitslausri notkun
ýmiss konar eiturefna, t.d. í landbúnaði, sem ógnað gætu lífríkinu með
ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessi eiturefni eyða „gagnlegum“ jafnt
sem „skaðlegum“ skordýrum, menga vatnsból og safnast fyrir í jarðvegi.
Þau raska viðkvæmu jafnvæginu milli tegundanna, ógna afkomu spen-
dýra og raska fuglalífi á margvíslegan hátt, t.d. með því að eyðileggja
eggjaskurn. Eitrið hefur bein áhrif strax við sjálfar aðgerðirnar og lengi
á eftir á meðan það dreifist upp eftir lífkeðjunni allri.
Bók Carsons var fljótt þýdd á ýmis tungumál og kom út á íslensku
hjá Almenna bókafélaginu árið 1965 undir titlinum Raddir vorsins
þagna. Tilgangur Carsons var langt í frá sá að gera eiturefni útlæg úr
landbúnaði, eða meina því að þau væru notuð sem vörn gegn alvar-
legum sóttkveikjum. Þetta skilur hver sá sem les bókina og nægir að
vísa til formálanna tveggja að íslensku útgáfunni eftir vísindamennina
Níels Dungal og Julian Huxley. Báðir leggja áherslu á að þótt framfarir
tuttugustu aldar hafi gert lífið öruggara og betra, verði mannkyn að
nálgast nýja þekkingu af varfærni og virðingu. Þótt nauðsynlegt og