Tímarit Máls og menningar - 01.09.2011, Blaðsíða 51
TMM 2011 · 3 51
Úlfhildur Dagsdóttir
Codus criminalus:
Mannshvörf og glæpir
Fyrir nokkrum árum var ég á gangi um Reykjavíkurborg, á björtum
vordegi, þegar síminn byrjar að hringja í úlpuvasanum. Ungur maður
kynnir sig og segist vera frá Viðskiptablaðinu og sig langi til að spyrja
mig nokkurra spurninga um Arnald Indriðason: af hverju hann sé
svona vinsæll? „Nú það er kuldinn,“ svara ég að bragði, því eins og allir
vita eru bjartir vordagar í Reykjavík ákaflega kaldir, „og auðnin,“ bæti ég
við, eftir að hafa horft aðeins í kringum mig – þótt ég væri á gangi um
vel gróið íbúðahverfi sást ekki nokkur sála á ferli.
Það er semsagt sviðsetningin sem kemur fyrst upp í hugann þegar ég
hugsa til bóka Arnaldar. Enda er sviðsetningin eitt helsta sérkenni þeirra,
hún skapar það sterka og sérstæða andrúmsloft sem þar ríkir. Annað
atriði, sem skiptir máli fyrir vinsældir bókanna, er hversu hæglátar þær
eru, næstum þunglamalegar. Áður en Arnaldur hafði náð alþjóðlegum
vinsældum skoðaði ég enska kynningarsíðu bókaútgefanda hans en þar
var bókum höfundarins lýst sem „fast paced thrillers“. Ég hló upphátt,
ekki bara að þessari fáránlegu lýsingu heldur misskilningnum sem í
henni fólst: að það að kynna sögur Arnaldar undir þessum formerkjum
væri til þess fallið að auka vinsældir þeirra. Því „fast paced“ er alls ekki
málið þegar kemur að þessum bókum.
Þetta á reyndar ekki aðeins við um sögur Arnaldar, því margt af því
sem hér kemur fram um þær á einnig við norrænar glæpasögur yfir-
leitt. Vinsældir norrænu glæpasögunnar ganga ekki aðeins þvert gegn
öllum hugmyndum um „léttmeti“ heldur einnig gegn hefðbundnum
hugmyndum um hvað vænlegt sé til vinsælda, svona almennt séð. Upp
til hópa eru þessar sögur hægar, eiginlega þunglyndislegar, myrkar,
svartsýnar, einmanalegar, kuldalegar, fullar af félagslegum vanda-
málum …1