Tímarit Máls og menningar - 01.09.2011, Side 83
TMM 2011 · 3 83
Finnur Þór Vilhjálmsson
Eylönd
Flugvélarnar eru ekki nema hvítvoðungur í vöggu, svo ung er þessi list. Og þó
voru þær kappar kallaðir í heimsins stærsta ófriði. Og nú hefir ein fleytt sér yfir
Atlantshafið á nokkrum klukkutímum.
Og ein hefir nú sést á sveimi hér yfir Reykjavík.
En að menn muni nokkru sinni alment geta flogið til Íslands, það þykir
spekingunum hér alveg óhugsandi!
Þessi er hættan sem íslensku þjóðerni stafar af fluglist, sem komin er á þroska-
skeið, svo að vanda- og hættulaust verður að ferðast með þeim tækjum:
Vér komumst svo að segja í nábýli við stórþjóðirnar. Þær kynnast oss og
högum vorum og háttum lands vors. Fluglistin bendir stórþjóðunum gráðugu á
barnið með gersimarnar, varnarlaust á almannafæri.
– M.J. [Magnús Jónsson]: Friður? Eimreiðin, 3. tbl. 1919
***
Ég var barn og ég hraktist á flótta, gjóaði andstuttur augum um öxl eftir
ógn sem stöðugt saxaði á mig. Tilfinningar geysuðu, miklar og kvikar,
mótsagnakenndar. Ég var ljónhugaður. Svall af göfugri bræði yfir
kúgun og níðingsskap, altekinn hinni sársætu, næstum höfugu kennd
að standa opinskátt keikur gegn ofurefli. Hina stundina hlupu í mig
eigindir refsins. Ég fólst í skuggum, gaut slægum augum úr hverfulum
skjólum; sætti lagi að smjúga úr snöru harðsækins valds sem ég hafði
storkað og strítt við, hafnað að beygja mig undir.
Að baki lá land sem ég kallaði mitt. Sígrænir skógar, lyngkafnar
heiðar, blómlegir akrar og tún. Alls staðar póstkortalandslag, yfir-
þyrmandi myndræna. Hvað knúði mig frá þessu herliga landi?
Og hvaða lykt var þetta? Jafnskjótt sá ég það. Undan mér rann með
þóttafullum rassaköstum þrifaleg lambfull kind. Hún hafði reistan
dindilinn, í miðjum klíðum að sparða mér veginn framundan, og fór
geyst svo klingdi og small í kleprum. Hvort hún rásaði af styggð – eins