Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Blaðsíða 42
42 TMM 2012 · 2
Brynja Þorgeirsdóttir
Samtal yfir tvö þúsund ár
Um tengsl Skugga-Baldurs og Ummyndana Óvíðs
Stundum koma fram listaverk sem eru pínulítil að utan en risastór að innan
og með ótal vistarverum. Það á við um Skugga-Baldur eftir Sjón, litla íslenska
skáldsögu sem hefur verið þýdd á fleiri tungumál en flest önnur íslensk verk –
nítján þegar þetta er skrifað – og aflaði höfundi sínum Bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs árið 2003. Þessi rómantíska skáldsaga með undirtitlinum
„þjóðsaga“ er marglaga verk með ýmiskonar vísanir í bókmenntir, en þar
er líka hægt að horfa eftir myndlist – eða jafnvel tónlist, sem er rík í þessu
verki. Verkið sækir enda hina fjórskiptu byggingu sína til strengjakvartetta
Schuberts, og eru hlutarnir fjórir í mismunandi tempói (Sjón, 2003b). Á síð
unum birtist ljóðrænn prósi þar sem myndrænt skiptast á hvítir og svartir
hlutar. Fyrsti hluti verksins gerist í kulda og vetrarríki, en í þeim næsta
ræður myrkrið ríkjum. Höfundurinn hefur sjálfur bent á að þannig er hægt
að horfa á verkið sem tvílitt málverk (Sjón, 2005). Bókin sjálf er smágerð eins
og fínleg planta úr íslenskri flóru, textinn nær aðeins yfir 117 blaðsíður og
oft eru bara nokkrar línur á hverri síðu, stundum ein setning.
Verkið er merkilegt fyrir margra hluta sakir, ekki síst fyrir samtalið sem
það á við annað verk sem var ritað tvö þúsund árum fyrr, Ummyndanir, eftir
skáldið Publius Ovidius Naso. Þar birtast í bundnu máli endursagnir og
umritanir Óvíðs á grískum og rómverskum goðsögum, sem allar fela í sér
einhverskonar ummyndun – frá manni í dýr, plöntu eða stein, og stundum
öfugt. Þetta víðfræga verk var um langt skeið helsta heimild manna um
grískrómverska goðsagnaheiminn. Óvíð var sjálfur sannfærður um eilíft líf
verksins því í niðurlaginu segir:
Og nú hef ég lokið verki sem hvorki bræði Júpíters né eldur né járn né tönn tímans
munu fá grandað […] nafn mitt mun aldrei verða gleymskunni að bráð. Hvar sem
undirokaðar þjóðir lúta valdi Rómaborgar mun nafn mitt vera á vörum manna, og
ef mark er takandi á spám skálda mun ég um allan aldur lifa.
(Niðurlag Ummyndana, Ovidius, 2009, bls. 433)
Óvíð reyndist sannspár því verkið hefur sannarlega átt mikið og innihalds
ríkt framhaldslíf; bæði fyrir eigin reikning og í verkum annarra skálda og
listamanna. Áhrif Ummyndana á listir og bókmenntir eru alltumlykjandi,
góðkunningjar Óvíðs í hópi klassískra skálda eru jaxlar eins og Chaucer,