Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Síða 76
76 TMM 2012 · 2
Matthías Johannessen
Úr Dagbókum Matthíasar
1999
8. janúar, föstudagur
Bar Andrés vin minn Björnsson út úr Dómkirkjunni í dag, ásamt Hannesi
Péturssyni, Jóni Þórarinssyni, Hirti Pálssyni, Herði Vilhjálmssyni, Markúsi
Erni, Gunnari Stefánssyni og Einari Laxness. Mér þótti vænt um að ég skyldi
hafa verið beðinn um að bera Andrés, það var mikill heiður. Sr. Gunnar
Kristjánsson jarðsöng og fórst það afar vel úr hendi. Hann flutti væmnis
lausa menningarræðu og ég gat þess við Hönnu að það gæti farið vel á því
að hann flytti einnig ræðu yfir mér því að hann hefur skrifað formála fyrir
Sálmum á atómöld. Hittum svo margt fólk í erfidrykkjunni í Súlnasal Hótel
Sögu, þar á meðal Jóhannes Nordal og Svein Einarsson sem alltaf hefur frá
mörgu að segja.
Ég hafði mikla ánægju af að hitta Hannes Pétursson. Það fer alltaf mjög
vel á með okkur og skiptir þá engu hvort við höfum hitzt nýlega eða ekki. Ég
hef raunar ekki séð hann í einhver ár en hann hefur lítið breytzt. Hann var
ósköp ljúfur og góður í tali og eins og hann var beztur á árum áður þegar við
hittumst nánast í hverri viku.
Mér þótti það tíðindum sæta að hitta Hannes eftir allan þennan tíma. Ég
sagði við hann hvort við gætum ekki heitið á okkur að hittast í kaffi einhvern
tíma á næstunni. Hann tók því vel en sagðist koma sjaldan í höfuðborgina
enda væri hann orðinn svo gamall og óhraustur.
Ég sagði við hann, Þú lítur mjög vel út, ég er viss um að þú ert hraustari
heldur en ég.
Ha, sagði Hannes og hrökk við. Það getur ekki verið.
Jú, jú, sagði ég og síðan reyndi ég að sannfæra hann um þetta og hann kom
engum vörnum við. Ég tíundaði ónýtan ristil í sjálfum mér, sagði honum
frá of háum blóðþrýstingi og nefndi raunar við hann alla þá kvilla sem mér
gátu dottið í hug þarna á gangstéttinni fyrir utan Dómkirkjuna og Hannes
varð yngri með hverjum þeim kvilla sem mig hrjáði og það endaði með því
að hann var orðinn hinn hressasti í bragði og líklega mörgum áratugum
yngri en þegar hann kom í kirkjuna. Hann hafði sem sagt hitt ofjarl sinn