Tímarit Máls og menningar - 01.09.2012, Síða 94
Á g ú s t B o r g þ ó r S v e r r i s s o n
94 TMM 2012 · 2
Í gegnum Báru fékk Óskar einhverja mynd af falli fjölskyldufyrirtækisins.
Hörð samkeppni hafði komið frá fyrirtækjum sem höfðu ítök inn í stjórn
málaflokka. Þetta varð til þess að sumir heildsalar hættu að skipta við
fyrirtækið og bankalán urðu torfengnari. En hvernig sem í þessu lá runnu
allar eignir fyrirtækisins til lánardrottna eftir dauða hans og ekkjan sat eftir
með hús sem hún gat ekki borgað af. Hún sagði: „Æ, hann var óttalegur
eyðsluseggur. Það þurfti til dæmis alltaf að kaupa nýjan bíl annað hvert ár“.
Óskar minntist þess að einu sinni voru samtímis þrír bílar á heimilinu, einn
splunkunýr, annar nýlegur og einn gamall. Það þótti óvenjulegt á þessum
tíma ólíkt því sem síðar varð.
„Og allar þessar ferðir til að hitta kúnna í Danmörku og Svíþjóð og
Þýskalandi – þetta voru rándýrar fyllirísreisur,“ sagði móðirin. Þrisvar fór
fjölskyldan sjálf til Mallorca á árunum upp úr 1970. Óskar og Bragi hlupu
eftir ströndinni og busluðu í sjónum sem var kaldur í fyrstu en volgur eins
og baðvatn eftir dálitla stund. Undir iljunum var sléttur og mjúkur sandur,
ólíkur fjörugrjótinu heima sem ískaldar öldur brotnuðu á. Fram undan
blasti við sjóndeildarhringurinn, himinn og haf mættust í blæbrigðalausri og
friðsælli eilífð. Mamma og Bára lágu í sólbaði en pabbi hékk á standbarnum
allan daginn. Á kvöldin borðuðu þau á veitingastöðum. Þá var pabbi yfirleitt
orðinn rauður í framan og óþægilega kátur.
Eftir að þau fluttu í blokkina urðu utanlandsferðir fjarlægur draumur.
Minningin um þær óraunveruleg eins og ímyndun. Það var var einhver allt
annar strákur sem hafði leikið sér á ströndinni á Mallorca. Sá strákur var
ekki lengur til. Það varð bræðrunum töluvert áfall að skyndilega voru ekki
neinir peningar til lengur. Í nýja skólanum þekkti þá enginn en áður höfðu
þeir notið aðdáunar skólafélaganna fyrir flottu bílana hans pabba, sólar
landaferðirnar og sjónvarpsauglýsingar fyrirtækisins þar sem þjóðþekktur
gamanleikari mundaði borvél og slípirokk. Í nýja hverfinu voru þeir núll og
nix. Vasapeningar voru úr sögunni. Hvað eftir annað var ísskápurinn hálf
tómur. Það kom fyrir að Óskar sofnaði svangur eða fór svangur í skólann.
Oft vantaði tannkrem, stundum jafnvel klósettpappír. Þegar þau héldu fyrstu
jólin í blokkaríbúðinni hafði hann ekki fengið nýja flík í meira en ár. Það
hafði aldrei gerst áður. Allt í einu þurftu Óskar og Bragi að deila herbergi.
Það olli því að um tíma slógust þeir meira en áður. Síðan hætti það að skipta
máli. Fátæktin vandist en lífið varð dapurlegt og Óskar áttaði sig á því að
hann hafði ekki haft hugmynd um hvað hann hafði verið hamingjusamur.
Oftast var söknuðurinn ómeðvitaður og hugurinn bundinn við viðfangsefni
dagsins. En sorgin litaði allt grátt. Þegar hann skrúfaði frá krananum inni á
baðherbergi sá hann fyrir sér sterklegan handlegg föður síns á rörtönginni
og hvíta skyrtuermina, heyrði rólega og yfirvegaða röddina leiðbeina sér. Í
þessari mynd var faðirinn enn lifandi í vitund hans og hún var ekki bara
söknuður heldur líka sérkennileg huggun.
Fyrstu dagana eftir að þau fluttu í blokkina beið Grettir oft eftir þeim