Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Qupperneq 54
Æ va r Ö r n J ó s e p s s o n
54 TMM 2013 · 1
* * *
„Hann fannst áfengisdauður á bekknum við tjörnina,“ sagði Uwe, „útataður
í blóði sem reyndist vera úr ungfrú Grimsdottir. Þegar loksins var hægt að
yfirheyra hann sagðist hann hafa drukkið nokkuð stíft nánast allt kvöldið
og fram að lokun, um þrjúleytið, en þá hafi hann rölt út í þennan svokall-
aða lystigarð, sest á bekkinn og haldið áfram að drekka á meðan hann beið
eftir Elke, uns hann að lokum lognaðist útaf. Vitni, þar á meðal Rolf Gülde,
staðfesta mikla drykkju hans þetta kvöld, sem og setu hans á bekknum eitt-
hvað eftir lokun Kólóradó. Við fundum líka tvö vitni sem rámaði í að hafa
séð ljóshærða konu við barinn á Kólóradó þennan laugardagseftirmiðdag,
en þar með er það líka upp talið sem styður þessa ólíkindasögu herra Thor-
stænsons. Meira kaffi?“
„Já takk,“ sagði Katrín. „Þannig að þið hafið ekkert verið að leita neitt
lengra?“ Uwe geiflaði sig.
„Ég er kannski latur,“ sagði hann, „en ekki svona latur.“ Katrín roðnaði.
„Fyrirgefðu, ég ætlaði ekki …“ Uwe brosti.
„Ég er að stríða þér. Við heimsóttum indjánabúðirnar og yfirheyrðum
alla sem þar voru. Engin kona í búðunum komst nálægt því að passa við
lýsingu herra Thorstænsson á þessari Elke. Sumar voru alltof stuttar, aðrar
alltof langar, of feitar, of mjóar, flatbrjósta eða barmmiklar, leggjalangar eða
fótstuttar og svo framvegis. Við tékkuðum að sjálfsögðu líka á unnustanum,
herra Erhardt, ekki síst afþví hann missti eiginkonu sína á voveiflegan hátt
fyrir þremur árum, hún drukknaði í Titisee í Svartaskógi. Það mál var hins-
vegar rannsakað í þaula á sínum tíma og hann var í Kína þegar það gerðist.
Nóttina sem ungfrú Grimsdottir var myrt var hann í einhverju sem hann
kallar svett framundir hálffjögur í leit að sinni innri kráku eða eitthvað
álíka gáfulegt. Þrír aðrir „indjánar“ svitnuðu með honum og staðfestu þetta,
auk þess sem einkaritarinn hans sá þá hverfa inní tjaldið uppúr miðnætti
og skreiðast útúr því ríflega þremur tímum síðar. Og áður en þú spyrð,“
sagði hann þegar Katrín opnaði munninn, „þá passar hún heldur ekki við
lýsinguna á Elke, þetta er óttaleg písl. Ég gekk svo langt fyrir landa þinn
að laumast til að smella af henni mynd með gemsanum, og hann kannaðist
ekki við hana. Nei,“ sagði hann, „herra Thorstænsson hafði bæði ástæðu
og tækifæri til að drepa frú Grimsdottir. Hún þekkti hann og vissi að hann
var eftirlýstur glæpamaður, hann viðurkenndi það sjálfur. Og hann fannst á
vettvangi, hefur enga fjarvistarsönnun, hafði aðgang að vopninu og fingraför
hans voru á því, kámug að vísu, og svona get ég haldið endalaust áfram.
En …“ Hann dró fram ljósmynd og lagði á borðið. „Þótt ég hefði ekkert
nema þetta,“ sagði hann, „þá væri það nóg. Miðinn sem hann hefur sjálfur
viðurkennt að hafa skrifað, þar sem hann biður hana að koma til fundar við
sig á morðstaðnum á morðtímanum. Mér þykir það leitt.“