Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 57
TMM 2013 · 1 57
Milan Kundera
Af verkum og köngulóm
1
„Ég hugsa.“ Nietzsche hefur efasemdir um þessa fullyrðingu sem helgast af
þeirri málfræðireglu að allar sagnir skuli stjórnast af frumlagi. Í rauninni
er þetta þannig, segir hann, að „hugsun kemur þegar [hún] vill, og þar af
leiðandi er villandi að tala um að frumlagið „ég“ myndi löggengi sagnarinnar
„að hugsa““. Hugsunin sækir á heimspekinginn „utanfrá, að ofan eða að
neðan, rétt eins og viðburðir eða ást við fyrstu sýn sem honum er ætluð“.
Hún hraðar sér til hans. Því Nietzsche kann vel að meta „vitsmunalíf sem er
djarft og ákaft, og hleypur presto“ og hann gerir gys að fræðimönnum sem
líta svo á að hugsun sé „hæg, hikandi starfsemi, eins konar erfiðisvinna sem
oftar en ekki útheimti svita hinna hetjulegu fræðimanna, en alls ekki létt og
guðdómlegt fyrirbæri sem er náskylt dansi og ærslum“.
Nietzsche segir að heimspekingurinn „eigi ekki að falsa með tilbúinni
ályktun og þrætubókarlist þá hluti og þær hugsanir sem hann hefur nálgast
með öðrum leiðum […] Maður ætti hvorki að fela né afbaka hve ákaft
hugsanirnar hafa sótt á okkur. Bækurnar sem rista dýpst og eru innihalds-
ríkastar koma alltaf til með að eiga eitthvað skylt við knappan og hnitmið-
aðan stíl Hugsananna eftir Pascal.“
„Ekki afbaka hve ákaft hugsanirnar hafa sótt á okkur“: mér finnst þessi
krafa stórkostleg; og ég tek eftir því að í öllum bókunum hans frá og með
Aurore eru allir kaflarnir skrifaðir í einni málsgrein: það er til þess að tjá
hugsunina í einu lagi; það er til þess að hún sé fest niður á blað eins og hún
var þegar hún hljóp til heimspekingsins, hröð og dansandi.
2
Það er ekki hægt að greina það ætlunarverk Nietzsches að varðveita „hve
ákaft“ hugsanirnar hafa komið til hans frá hinni kröfunni hans sem hrífur
mig: að standast þá freistingu að skipa hugmyndum sínum í kerfi. Heim-
spekikerfi „eru núna orðin aumkunarverð og ræfilsleg, það er varla sjón
að sjá þau“. Árásin beinist að óhjákvæmilegri kreddufestu kerfisbundinnar