Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Side 80
G u ð m u n d u r D . H a r a l d s s o n
80 TMM 2013 · 1
Rannsóknin, sem var gerð 2005, leiddi í ljós að einn af hverjum fjórum
fullorðnum hérlendis kemur of þreyttur heim úr vinnu, nokkrum sinnum í
viku, til að geta sinnt heimilisstörfum, og einn af hverjum þremur nokkrum
sinnum í mánuði. Samanburður var gerður milli þátttökulanda. Ísland kom
illa út úr þeim samanburði: Af öllum þátttökulöndunum var mest kvartað
undan þreytu hérlendis! Í engu öðru þátttökulandi mældist hærra hlutfall
fólks sem sagðist koma of þreytt heim til að sinna heimilisstörfum, nokkrum
sinnum í mánuði eða oftar.33
Svipaða sögu var að segja þegar fólk var spurt um hvort það næði að klára
öll verkefni í vinnunni. Í aðeins tveimur þátttökulöndum voru fleiri (hlut-
fallslega) sem tóku undir það, að þeim gengi illa að ljúka öllum verkefnum
vegna anna, en á Íslandi.
Niðurstaðan gæti vart verið skýrari. En hvað þýðir hún? Sé hún sett í
samhengi við það sem hefur komið fram áður – langir vinnudagar, mikið
umfang vinnunnar, lág framleiðni á hvern unninn klukkutíma – bendir hún
sterklega til þess að á Íslandi vinni fólk of mikið og að sennilega sé skipulagi
vinnunnar ábótavant miðað við hin Norðurlöndin og ýmis Evrópuríki.
Skipulagið kalli á lengri vinnudag – því illa gengur að klára verkefnin eins
og rannsóknin sýndi – og langur vinnudagur kalli fram þá þreytu sem svo
berlega kom fram í rannsókninni. Eitthvert frekara samspil er líklegt hér á
milli, og er það trúlegast flókið. Niðurstaðan styður sem sagt þá hugmynd að
hér sé margt fólk þreytt vegna vinnu, en líka að skipulagi sé trúlega áfátt.34
Stytting vinnudagsins gæti orðið til þess að bæta úr þessu, eins og áður
sagði. Stytting vinnudagsins gæti orðið til þess að skipulagi vinnunnar hér-
lendis yrði breytt, og líka til að fólk hvíldist betur.
Einhverjir kunna að hafa tekið eftir því að rannsóknin er frá árinu 2005 –
nokkrum árum fyrir hrun. Á niðurstaðan enn við í dag?35 Ef ástæðan fyrir
svöruninni 2005 var of mikil vinna – þá, já. Þeir sem hafa vinnu á Íslandi,
vinna enn mikið, líkt og kom fram áður. Sama gildir líklegast um skipulag
vinnunnar – skipulagið almennt hefur trúlega ekki breyst mikið.
Ef vinnudagurinn verður styttur, þarf sérstaklega að gæta að þreytu fólks.
Styttingin þarf að hvetja til að skipulagi vinnunnar verði breytt þannig að fólki
líði betur – ekki verr. Ekki má hrófla þannig við skipulagi að fólki líði verr.
Stéttarfélög þyrftu að hafa eftirlit með því – og gera ráð fyrir að geta hlutast til
um vinnufyrirkomulag (í samráði við atvinnurekendur) í samningum.
(c) Eins og vel er þekkt hefur atvinnuleysi á Íslandi aukist frá árinu 2008.
Atvinnuleysi fór úr um 3% 2008 í 8% árið 2010.36 Hugsum okkur að vinnu-
dagurinn yrði styttur um eina stund, þannig að hver sá sem er í fullu starfi
myndi vinna um 35 stundir á viku í stað 40 stunda.37 Aðrir sem vinna meira
eða minna myndu minnka sína vinnu í réttu hlutfalli við styttinguna (t.d.
myndi sá sem ynni 60 stundir á viku fyrir styttingu vinna 53 stundir eftir
hana).