Tímarit Máls og menningar - 01.03.2013, Page 99
S a m a s t a ð u r
TMM 2013 · 1 99
að hann er hjartveikur og mér detta í hug nokkrar mögulegar greiningar,
flestar slæmar. Það er augljóst að hann mun ekki þola ferð með sjúkrabílnum
suður en það er jafnframt nauðsynlegt að koma honum á vel útbúið sjúkra-
hús strax. Ég kalla út flug.
Eftir nokkurt þóf er ákveðið að reyna að fljúga og ég hringi í sjúkraflutn-
ingamanninn á staðnum. Þegar hann kemur bý ég eins vel um Jón og ég
get á mjóum börunum og þau hjónin kveðjast í snarheitum. Gunnu ber við
birtuna inni í húsinu þar sem hún stendur í dyrunum. Ég sé engin svipbrigði
en rauð svuntan sveiflast eins og hungruð tunga á eftir okkur í rokinu.
Flugvallarvörðurinn hefur kveikt ljósin og litla vélin lendir skjálfandi
eftir tvær tilraunir og rúma klukkustund. Flugmaðurinn er þjóðsagna-
persóna, þekktur fyrir að geta lent hverju sem er hvar sem er. Það gustar bók-
staflega um hann þegar hann stekkur glaðbeittur og óttalaus út úr vélinni
sem bifast til í rokinu, klæddur í gallabuxur, fráhnepptan leðurjakka og
svartan bómullarbol. Hann reynir að koma af stað samræðum eftir því sem
aðstæður leyfa á meðan ég er að koma okkur Jóni sem best fyrir í þrengsl-
unum aftur í.
– Þú hlýtur að hafa verið með honum Palla Heimis í læknisfræðinni, segir
flugmaðurinn vingjarnlega. – Hann hélt bestu partí í bænum þegar við
vorum í háskólanum. Flottustu stelpurnar og besta tónlistin! Hann brosir
uppörvandi til okkar Jóns en ég nenni ekki að taka undir svo hann drífur
okkur í veltandi flugtak án þess að gera tilraun til frekari samræðna.
Yfirleitt er ég ekki flughrædd en í þetta skipti blöskrar mér. Allt hoppar
um inni í vélinni og það sem verra er, Jóni hrakar ört. Hann kastar upp og
verður æ móðari. Ég tek eftir að hann er að reyna að segja eitthvað við mig
á bak við súrefnisgrímuna en ég heyri ekki orðaskil vegna hávaðans í flug-
vélinni. Ég losa hana varlega af og hann kastar upp. Ælan lendir á jakkanum
mínum, höndunum, ábreiðunni og gólfinu. Honum líður greinilega mjög
illa. Ég lagfæri á honum grímuna og skrúfa skjálfhent upp súrefnið. Blóð-
þrýstingurinn virðist líka vera að lækka ískyggilega og ég reyni að auka
innrennslisvökvann. Mér er orðið óglatt af hristingnum og lyktinni og það
virðist vera sama hvað ég reyni, ekkert kemur að gagni. Angist og kvalir
sjúklingsins blandast hávaðanum frá hreyflunum og mér svíður að geta ekki
staðið undir væntingum og trausti þessa manns sem hefur ekkert nema mig
að binda vonir sínar við. Ég reyni að halda mér í þegar vélin tekur snögga
dýfu yfir Snæfellsnesinu og mér bregður þegar ég lít aftur á Jón og sé að hann
hefur misst meðvitund. Litli skjárinn á gamla hjartatækinu sýnir hraðar,
óreglulegar bylgjur og ég gríp um gulnuð plasthandföngin til að gefa honum
rafstuð. Það vælir í tækinu í smástund eftir að ég kveiki á því og hann kippist
til á börunum þegar rafmagnið fer í gegnum líkamann. Ég bíð eitt augnablik
og vona að hann fari í gang en bylgjurnar eru jafn óreglulegar og áður. Ég set
inn aðra hleðslu en þá slokknar skyndilega á tækinu.
Einhver hefur gleymt að hlaða það.