Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Blaðsíða 4
4 TMM 2016 · 2
Lars Lönnroth
Bréf Sigurðar Nordals til Nönnu
Jón Yngvi Jóhannsson þýddi
Mikilvægi Sigurðar Nordals fyrir íslenska menningu verður vart ofmetið.
Hann var prófessor við Háskóla Íslands frá árinu 1918 til dauðadags árið
1974, þekktasti hugvísindamaður Íslendinga á alþjóðavettvangi og forystu-
maður hins svokallaða „íslenska skóla“ í rannsóknum á íslenskum forn-
bókmenntum. Fornsagnaútgáfur hans, bókmenntasöguleg yfirlitsverk og
snilldarvel skrifaðar bækur um íslenska menningu náðu til breiðs hóps les-
enda bæði í heimalandi hans og erlendis. Sem sendiherra í Kaupmannahöfn
á árunum 1951–57 leiddi hann samningaviðræðurnar sem leiddu til þess að
íslensk handrit voru flutt aftur frá Danmörku til Íslands.
Auk þessa var hann, einkum á yngri árum, mikilsmetið skáld og nýjunga-
maður í íslenskum fagurbókmenntum, ekki síst með ritgerðum sínum og
lýrískum smásögum í smásagnasafninu Fornar ástir (1919). Margir hafa
fjallað um mikilvægi hans fyrir íslenska menningu á 20. öld, meðal annars
Kristinn E. Andrésson sem dregur mikilvægi hans saman á þennan hátt í
Íslenskum nútímabókmenntum 1918–1948:
Með því að halda svo á loft virðingu fyrir bókmenntum og menningu, hefur hann
verið hvöt og örvun skáldum og öðrum, sem að menningarstörfum vinna. Ásamt
fremstu skáldunum hefur hann lyft hæst nútíðarmenningu Íslands og framar
öðrum mótað sjálft hugtakið íslenzk menning og gefið því dýpra innihald en áður.
(207)
Alkunna er að grundvöllurinn að starfi Sigurðar Nordals í þágu íslenskrar
menningar var lagður á þeim árum er hann dvaldi erlendis ungur maður,
fyrst og fremst í Kaupmannahöfn þar sem hann varði doktorsritgerð sína
árið 1914, en einnig í Berlín og Oxford þar sem hann dvaldi sem styrk-
þegi í styrjaldarófriðnum miðjum og lagði stund á heimspeki á tímabilinu
1916–18, áður en hann sneri aftur til Reykjavíkur haustið 1918 til að taka
við prófessorsstöðu eftir Björn M. Ólsen. Þrátt fyrir þetta hefur ekki mikið
verið vitað um þessi mótunarár, ef frá er talið það litla sem hann sjálfur
kaus að segja frá. Fyrst nú hefur stórt bréfasafn frá þessu tímabili komið
fram í dagsljósið, að stærstum hluta á dönsku en einnig á íslensku, þýsku
og ensku (síðastnefndu málin voru notuð til þess að bréfin slyppu í gegnum
ritskoðun þegar hann dvaldi í Berlín og seinna Oxford á árum fyrri heims-