Tímarit Máls og menningar - 01.06.2016, Síða 86
H j a l t i Þ o r l e i f s s o n
86 TMM 2016 · 2
leikni pabba síns og öðlast skilning á mikilvægi þess að þeim sé hlýtt „[…]
sem [… hefur] reynsluna, kunnáttuna og máttinn.“29 Samsömun feðganna
endurspeglar hvernig hæfnin til sjálfsbjargar hefur flust á milli kynslóðanna
í gegnum aldirnar með samhentri vinnu, virkni og stöðugri baráttu við æðri
máttarvöld.
Þessi tengsl fólks og jarðar eru ekki aðeins greinanleg í Sturlu sjálfum
heldur einnig í aukapersónum bókarinnar svo sem í Birni gamla í Vogum,
fyrrum húsbónda hans. Björn hefur lifað og hrærst á sömu jarðeigninni ára-
tugum saman, þekkir þar hverja þúfu og ber svip af landslagi hennar í útliti
sínu og eðli líkt og arftakinn. Lífsbaráttan hefur ekki verið honum neinn
dans á rósum en samt telur hann sér skylt að þakka náttúrunni, hinni miklu
móður, af auðmýkt fyrir að hafa séð sér og sínum farborða:
Það, sem hann hafði í byrðuna borið á sinni jarðreisu, það var allt úr brjóstum
þeirrar moldar, sem var í þessari útnesja-landareign, og úr þeim blessaða sjó, sem
hér var fyrir framan. Það var kjarngresi þessara grunda og hlíða, hvannstóð þessara
kletta og þarinn í þessari fjöru, sem hafði gefið hans ferfætlingum merg í bein og
á bringuna feiti. Og það var þessi sjór, sem hafði nært það sporðumblakandi fiski-
fang, sem að hans krókum hafði hvarflað. Náðarbrauð, náðarbrauð, bitið af þeim
blessuðu munnum, sem hér voru í Vogum.30
Sveitafólk Hagalíns ber því ekki aðeins svip af umhverfinu sem það lifir í
heldur einnig af því umhverfi sem það lifir á. Eins og fram kom hér í upp-
hafi hlaut Sturla í Vogum misjafnar viðtökur en síðar virðast menn hafa
sammælst um að gallar hennar séu fleiri en kostirnir og að þar hafi Hagalín
gert heldur auma tilraun til að endursemja Sjálfstætt fólk. Sem dæmi um
annmarka nefnir Jón Yngvi Jóhannsson það sérstaklega að útlitslýsingar
Sturlu, þar sem honum er sí og æ líkt við bergið, drangana og brimið, keyri
fram úr öllu hófi og að ásamt of upphafinni sýn á karlmennsku beri þær
söguna hreinlega ofurliði. Þá finnst honum sláandi hve lík frásagnaraðferðin
er bók Laxness auk þess sem söguhetjan sjálf minni óþarflega mikið á Bjart í
Sumarhúsum.31 Hvað varðar lýsingar á Sturlu gengur Hagalín ef til vill full-
langt og taka verður undir að ágallar á sögunni eru ófáir. Til að mynda virkar
einn meginkjarni hennar, sem áður hefur verið nefndur, ráðagerð feðganna á
næsta bæ um nauðgun á eiginkonu Sturlu, á lesandann sem bæði vanhugsuð
og ankannaleg. Hið ótrúlega samband og hliðstæða persóna við umhverfið
stingur þó ekki svo mjög í stúf við annað sem frá Hagalín kom.32 Þannig
lýsir hann svipbrigðum Kristrúnar í Hamravík á sambærilegan hátt þegar
hann segir að brýr hennar séu „[…] eins og hengja, sem er að því komin
að hlaupa, augun eins og gljáandi svell og munnurinn eins og samansigin
sprunga í gulnaðri gróf undir klettaskúta.“33 Þá er sonur hennar þar að auki
sagður á við „hnullungs blágrýtu“34 sem er nokkuð sem allt eins gæti átt við
um Sturlu í Vogum.